Freyja Steingrímsdóttir, stjórnmála- og upplýsingaráðgjafi, hefur verið ráðin pólitískur ráðgjafi Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar að því er fram kemur í fréttatilkynningu. Freyja hefur síðustu ár starfað við stjórnun herferða og almannatengsl, nú síðast fyrir Festu - miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, frá því í haust.

Þá hefur hún meðal annars starfað sem verkefnastjóri fyrir Evrópuþingkosningar, unnið að upplýsingamálum fyrir Eftirlitsstofnun EFTA og sinnt stjórnmála- og upplýsingaráðgjöf víða um Evrópu og í Bandaríkjunum fyrir fyrirtækið Indigo Strategies.

Freyja hefur unnið til fjölda evrópskra verðlauna (Polaris Awards EAPC) fyrir herferðir sem hún hefur stýrt. Árið 2017 vann hún fern verðlaun fyrir málefnaherferð með það að markmiði að þrýsta á Framkvæmdarstjórn ESB að samþykkja löggjöf um vinnuvernd.

Í síðustu viku vann hún síðan aftur til tveggja verðlauna fyrir herferð sem hún mótaði og stýrði fyrir evrópsku verkalýðshreyfinguna í flokkunum besta notkun samfélagsmiðla og besta stafræna herferðin. Freyja er fædd 1989 og er menntuð í stjórnmála- og jafnréttisfræðum. Hún hefur auk þess unnið að margvíslegu félagsstarfi t.d. fyrir Stúdentaráð, Unga Evrópusinna, Já Ísland, Leaderise (Young Women who Lead) og Samfylkinguna.