Forsætisráðherra skipaði í dag þriggja manna hæfnisnefnd í samræmi við ákvæði laga um Seðlabanka Íslands til að meta hæfni umsækjenda um embætti aðstoðarseðlabankastjóra. Nefndina skipa Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins, Þórunn Guðmundsdóttir, hæstaréttarlögmaður, tilnefnd af bankaráði Seðlabanka Íslands, og Friðrik Már Baldursson, prófessor við Háskólann í Reykjavík, sem jafnframt er formaður nefndarinnar.

Embætti aðstoðarseðlabankastjóra var auglýst laust til umsóknar þann 21. febrúar sl. og sóttu 14 um embættið. Tveir umsækjendur drógu umsókn sína til baka og einn umsækjandi uppfyllti ekki almenn hæfisskilyrði laga um Seðlabanka Íslands.

Viðskiptablaðið greindi frá því að þessir tólf, í stafrófsröð, hefðu sótt um embættið:

  1. Daníel Svavarsson, hagfræðingur, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans.
  2. Guðrún Johnsen, hagfræðingur og lektor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands
  3. Stefán Hjalti Garðarsson, reikni- og fjármálaverkfræðingur.
  4. Jón Þ. Sigurgeirsson, fram­kvæmda­stjóri alþjóða­sam­skipta og skrif­stofu banka­stjóra hjá Seðla­banka Íslands
  5. Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.
  6. Lúðvík Elíasson, hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands á sviði fjármálastöðugleika
  7. Ólafur Margeirsson, hagfræðingur.
  8. Rannveig Sigurðardóttir, staðgengill aðalhagfræðings Seðlabanka Íslands, aðstoðarframkvæmdastjóri hagfræði- og peningastefnusviðs bankans og ritari peningastefnunefndar Seðlabankans.
  9. Stefán Jóhann Stefánsson, hagfræðingur og ritstjóri Seðlabanka Íslands
  10. Tryggvi Guðmundsson, hagfræðingur.
  11. Vilhjálmur Bjarnason, viðskiptafræðingur og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins
  12. Þorsteinn Þorgeirsson, hagfræðingur á skrifstofu bankastjóra Seðlabanka Íslands.

Ráðgert er að endanleg niðurstaða hæfnisnefndar liggi fyrir eigi síðar en 30. maí.