Friðrik krónprins Danmerkur og eiginkona hans Mary krónprinsessa koma í heimsókn til Íslands 5.-8. maí næstkomandi í boði forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar og Dorrit Moussaieff forsetafrúar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu forseta.

Krónprinsinn og krónprinsessan koma til Íslands að morgni mánudagsins 5. maí næstkomandi. Forsetahjónin taka á móti þeim á Bessastöðum kl. 11:40.

Eftir hádegisverð í boði forsetahjóna heimsækja krónprinshjónin Áslandsskóla í Hafnarfirði þar sem Leifur S. Garðarsson skólastjóri, kennarar og nemendur taka á móti gestum og kynna dönskukennslu og annað starf í skólanum.

Þaðan liggur leiðin í Þjóðmenningarhúsið þar sem Vésteinn Ólason forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar fylgir gestum um handritasýninguna.

Síðdegis taka Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands og Stefán Arnórsson stjórnarformaður Jarðvísindastofnunar HÍ á móti Friðriki krónprins og forseta Íslands í Öskju, húsi náttúruvísinda HÍ. Þar verður stutt ráðstefna um jarðvísindi, jöklafræði og loftslagsbreytingar. Á sama tíma munu Mary krónprinsessa og forsetafrúin kynna sér íslenska hönnun og heimsækja Eggert Pétursson listmálara.

Í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar tekur Birgitta Spur á móti krónprinshjónunum og forsetahjónunum. Þar mun Charlotte Bøving leikkona lesa ljóð sem íslensk skáld hafa samið á dönsku og Hlíf Sigurjónsdóttir og Martin Frewer fiðluleikarar flytja hluta úr verki eftir Hildigunni Rúnarsdóttur tónskáld.

Að kvöldi mánudagsins 5. maí er kvöldverður forsetahjóna á Bessastöðum til heiðurs Friðriki krónprins og Mary krónprinsessu Danmerkur.

Að morgni þriðjudagsins 6. maí liggur leiðin fyrst að Dallandi þar sem Gunnar Dungal og Þórdís Alda Sigurðardóttir taka á móti gestum. Eftir stutta sýningu er fyrirhugað að halda í reiðtúr á hestum frá Dallandi og Íshestum. Síðan haldið til Nesjavalla þar sem Kjartan Magnússon stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, Guðjón Magnússon sviðsstjóri og Hólmsteinn Sigurðsson framkvæmdastjóri taka á móti gestum, kynna orkuverið og starfsemi Orkuveitunnar.

Eftir gönguferð niður Almannagjá og að Lögbergi bjóða Geir H. Haarde forsætisráðherra og frú Inga Jóna Þórðardóttir til hádegisverðar á Þingvöllum.

Síðdegis liggur leið gestanna að Gullfossi og Geysi þar sem gengið verður að konungssteinunum svokölluðu en Dansk-íslenska verslunarráðið hefur nýverið gengist fyrir endurgerð áletrunar á þeim. Frá Geysi í Haukadal verður haldið til Eyrarbakka. Séra Úlfar Guðmundsson sóknarprestur tekur á móti gestum í kirkjunni en altaristaflan þar er eftir Louise drottningu, formóður krónprinsins. Síðan mun Lýður Pálsson safnstjóri sýna Húsið og kynna safnastarfið.

Síðasti áfangastaður gestanna þriðjudaginn 6. maí er veitingahúsið Fjöruborðið á Stokkseyri.

Miðvikudaginn 7. maí halda krónprinshjónin til Stykkishólms. Fyrsti áfangastaður þar er Grunnskólinn þar sem Gunnar Svanlaugsson skólastjóri, nemendur og starfsfólk kynna starfsemina. Erla Friðriksdóttir bæjarstjóri býður gesti velkomna og segir frá hinum árlegu Dönsku dögum í bænum.

Eftir heimsókn í Vatnasafnið liggur leiðin í Norska húsið þar sem Aldís Sigurðardóttir safnstjóri byggðasafnsins leiðir gesti um húsakynnin. Í kjölfarið mun Þorsteinn Gunnarsson arkitekt fjalla um dönsk áhrif á íslenska húsagerðarlist og Jon Nordsteien arkitekt segja frá endurgerð gamalla húsa í Stykkishólmi. Eftir hádegi býður bæjarstjórn Stykkishólms gestum til siglingar um Breiðafjörð með Særúnu.

Síðdegis miðvikudaginn 7. maí býður sendiherra Danmerkur á Íslandi til móttöku um borð í Vædderen í Reykjavíkurhöfn.

Að morgni fimmtudagsins 8. maí munu krónprinshjónin heimsækja Íslenska erfðagreiningu þar sem Kári Stefánsson forstjóri kynnir starfsemi fyrirtækisins en halda síðan heimleiðis til Danmerkur.