EFTA ríkin hafa gert fríverslunarsamning við kákasuslýðveldið Georgíu. Ná nú fríverslunarsamningar EFTA til 37 landa utan samtakanna. Fór undirritun fram í gær á ráðherrafundi samtakanna sem haldinn er í Bern í Sviss.

Ekvador næst og mögulega MERCOSUR ríkin

Jafnframt var fríverslunarviðræðum við Ekvador ýtt úr vör á fundinum sem og stefnt er að því að taka á nýju upp viðræður við Indland eftir tveggja ára hlé. Fjallað var einnig um stöðu viðræðna EFTA ríkjanna við Malasíu, Indónesíu og Víetnam og rætt um endurskoðun samninga við Chile, Kanada, Mexíkó og Tyrkland.

Að auki rýkti bjartsýni á að fríverslunarviðræður gætu hafist á næstunni við MERCOSUR-ríki Suður-Ameríku, það er Argentínu, Brasilíu, Úrugvæ, Paragvæ og Venesúela.

Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, skrifaði undir fyrir Íslands hönd, en Girogi Kvirikashvili, forsætisráðherra Georgíu og Dimitry Kumsishvili, varaforsætisr- og efnahagsráðherra landsins, skrifuðu undir fyrir hönd Georgíu.