Frosti Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Dohop og stjórnarmaður í Heimssýn, telur ekki líklegt að Ísland muni ná að uppfylla skilyrði um upptöku evru á næstu árum. Hann hefur því ekki trú á að tiltrú erlendra fjárfesta aukist vegna aðildarumsóknar.

,,Sú skoðun hefur komið fram hjá einhverjum atvinnurekendum að það verði auðveldara að ná árangri í rekstri Íslenskra fyrirtækja ef Ísland gerist aðili að ESB og hér verði tekin upp evra í framhaldinu. Þá munum við losna við þann óstöðugleika sem einkennt hefur krónuna og aðgangur að erlendu lánsfé batni. Sumir virðast jafnvel trúa því að aðildarumsókn ein og sér muni efla tiltrú erlendra fjárfesta, styrkja gengi krónu og bæta aðgang að erlendu lánsfé," sagði Frosti.

Frosti sagði að því miður bendi allar hagstærðir til þess að Ísland muni ekki ná að uppfylla skilyrði ESB um upptöku evru fyrr en eftir mörg ár, líklega áratugi. ,,Þetta vita erlendir fjárfestar að sjálfsögðu og því mun tiltrú þeirra ekki aukast í bráð þótt við göngum í ESB. Við þurfum að grípa til mun trúverðugri aðgerða til að vekja tiltrú fjárfesta og gæta þess að eyða ekki tíma í að elta þá hókus pókus lausn stjórnmálamanna sem ESB aðild er," sagði Frosti.

Evran of sterk fyrir Írland

Frosti sagði að aðgangur að lánsfé sé erfiður alls staðar í heiminum. ,,Hvernig halda menn að írskum fyrirtækjum gangi að fá lán núna? Samt eru Írar í ESB og með hina rómuðu evru. Evran er bara of sterk fyrir Írland núna og þeir geta engu breytt um það. Samkeppnishæfni írsks atvinnulífs hefur minnkað í samanburði við breskt atvinnulí því gengi pundsins hefur lækkað miðað við evru. Vandamál Írlands verður auðvitað ekki leyst með því að ganga í ESB og taka upp evru. Eins og Íslendingar, þá gerður Írar sín mistök og nú þurfa þeir að vinna sig upp úr vandanum með trúverðugum aðgerðum, eins og við.

ESB stoppar ekki aðildarríki sín í að gera mistök og það leysir heldur ekki vandamálin fyrir sín aðildarríki. Þegar harðnar á dalnum er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn líka sendur inn í ESB ríkin."

Dregur í efa að annar gjaldmiðill en krónan henti

Frosti benti á að krónan hafi ekkert truflað Ísland í því að komast úr hópi fátækustu þjóða Evrópu í hóp þeirra ríkustu á fáeinum áratugum.

,,Ég dreg í efa að annar gjaldmiðill hefði verið eitthvað hentugri eða við náð meiri lífsgæðum með alþjóðlega mynt. Lönd sem hafa eigin gjaldmiðil eru einmitt samkeppnishæfari en önnur lönd og þau geta betur mætt hagsveiflum. Þau geta frekar haldið atvinnuleysi niðri, sköttum lágum og viðvarandi afgangi af viðskiptum við útlönd ef rétt er haldið á spilunum. Joseph Stiglitz hagfræðingur og nóbelsverðlaunahafi skrifaði mjög áhugaverða skýrslu fyrir Seðlabankann árið 2001 sem innihélt prýðilegar ábendingar um hvernig við gætum náð árangri með eigin mynt, varið hana gegn spákaupmennsku ofl. Seðlabankinn hefði betur farið eftir þeim ábendingum. Það væri líklega trúverðugt í augum umheimsins ef við tækjum upp þau ráð núna í stað þess að tala niður krónuna sem ónýtan gjaldmiðil."

Áhættusamt að ganga inn

,,Það er ekki bara óþarft fyrir Ísland að ganga í ESB heldur er það líka áhættusamt. Við erum mjög fá og eigum hlutfallslega miklu meira af auðlindum, land- og hafsvæðum en aðrir íbúar Evrópu. Hagsmunir okkar eru ólíkir þeirra að því leiti að við erum aflögufær með orku, land og prótein en Evrópubúa skortir orku, vatn og prótein. Við ættum ekki að freista þeirra með því að deila með þeim löggjafarvaldi yfir landinu. Til langs tíma litið mun það bara fara á einn veg.

Það þjónar ekki hagsmunum íslensks atvinnulífs vel að loka sig inni í tollabandalagi með þjóðum sem sjá fram á minni hagvöxt en flest önnur svæði heims. Skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um Evrópusvæðið dregur upp fremur dökka mynd af ástandinu í ESB næsta áratuginn ef ekki lengur. Á sama tíma er hagvöxtur í Kína 7% og ágætt ástand í Kanada. Nýlega tók gildi fríverslunarsamningur við Kanda og samningur við Kína er á leiðinni. Rétt að geta þess að allir fríverslunarsamningar Íslands við önnur lönd eru ómetanlegur fjársjóður, sem tekið hefur áratugi að byggja upp, en þeir munu allir falla niður við inngöngu í ESB og verða ekki endurvaktir þótt við segjum okkur úr sambandinu. Úrsögn úr ESB er því nánast óhugsandi, hversu illa sem okkur líkar vistin."