Frumtak, samlagssjóður í eigu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, sex af stærstu lífeyris­sjóðum landsins og þriggja banka, hefur fjárfest í félaginu Valka ehf. Valka er nýsköpunarfyrirtæki sem sérhæfir sig í tæknilausnum fyrir fiskiðnaðinn.

Úr fréttatilkynningu:

„Lausnir Völku við sjálfvirkan skurð og flokkun á fiski hafa vakið mikla athygli þar sem þær auka nýtingu og verðmæti hráefna umtalsvert. Valka hefur einnig þróað hugbúnað til að halda utan um pantanir á ferskum fiski og framleiðsluferlið. Fyrirtækið er nú að þróa beinaskurðarvél sem notar vatn og röntgentækni til þess að ná fram nákvæmari skurði og betri nýtingu á hráefni. Þetta verkefni er unnið í samstarfi við kaupanda og AVS þróunarsjóðinn.

Framtíðarsýn Völku er að vera leiðandi í þróun og framleiðslu á vinnslukerfum fyrir fiskafurðir.  Aukin sjálfvirkni, bætt nýting og frábær meðhöndlun hráefnis ásamt auknum afköstum eru allt atriði sem stuðla að aukinni hagkvæmni og auka samkeppnisforskot vinnslufyrirtækja.  Félagið, sem stofnað var árið 2003 af Helga Hjálmarssyn, hefur vaxið hægt og örugglega eftir því sem það hefur þróað tæknilausnir til sölu á innlendum og erlendum markaði.  Félagið á þegar nokkur einkaleyfi og eru fleiri í vinnslu.  Valka hefur m.a. selt afurðir sínar til Noregs, Kanada, Færeyja auk þess að selja þær hér á landi.

„Valka er áhugavert fyrirtæki fyrir Frumtak“ sagði dr. Eggert Claessen, framkvæmdastjóri Frumtaks.  „Tæknilausnir Völku eiga erindi á heimsmarkað.  Vörur þess byggja á frumkvæði og forystu Íslendinga í sjávarútvegi og það er ánægjulegt að geta lagt fyrirtækinu lið í að markaðssetja vörur sínar á erlendum markaði.  Þessi fjárfesting eykur einnig fjölbreytni í fjárfestingum sjóðsins, sem skiptir okkur miklu máli“.

„Valka er fyrirtæki sem byggir á íslensku hugviti“ sagði Helgi Hjálmarsson, framkvæmda­stjóri Völku. „Það er samhentur hópur sem hefur staðið að uppbyggingu félagsins og þróað þá tækni sem lausnir félagsins byggja á í góðu samstarfi við viðskiptavini þess.  Samstarf Völku og Frumtaks gerir fyrirtækinu kleift að efla alþjóðlega markaðssetningu og nýta samkeppnisforskot félagsins.“

Frumtak er samlagssjóður í eigu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, sex af stærstu lífeyris­sjóðum landsins og þriggja banka. Frumtak fjárfestir í nýsköpunar- og sprota­fyrirtækjum sem þykja vænleg til vaxtar og útrásar. Markmið Frumtaks er að byggja upp öflug fyrirtæki sem geta verið leiðandi á sínu sviði og um leið skilað góðri ávöxtun til fjárfesta. Frumtak fjárfestir í fyrirtækjum sem eru komin af klakstigi og er áskilið að fyrir liggi ítarlegar viðskiptaáætlanir.“