Félags- og húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttir hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um Íbúðarlánasjóð. Snýr það að hlutverki sjóðsins til framtíðar sem verður takmarkað við sértæk lán á félagslegum forsendum eða vegna markaðsbrests.

Aðstoð við þá sem ekki eiga aðra kosti

Jafnframt eru skýrð ákvæði um skyldu sveitarfélaga til aðstoða þá sem eiga erfitt með að afla sér eigin húsnæðis og íbúðarlánasjóði falið að taka þátt í húsnæðisáætlunum sveitarfélaga.

Verða lán til einstaklinga einskorðuð við þá sem ekki eiga kost á fasteignalánum á ásættanlegum kjörum hjá öðrum lánastofnunum, svo sem vegna staðsetningar fasteignarinnar eða af öðrum ástæðum.

Lán veitt til leigufélaga án hagnaðarsjónarmiða

Jafnframt mun sjóðurinn veita lán til leigufélaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða og til sveitarfélaga vegna húsnæðis fyrir sértæka hópa. Sjóðnum verður falin umsjá með veitingu og eftirlit á stofnframlögum til slíkra aðila og á hann að sjá um stefnumótun, greiningu og áætlunargerð varðandi húsnæði í landinu.

Loks er kveðið um skýran bókhaldslegan aðskilnað milli eldra lánasafns og skuldbindingar sjóðsins og nýrra lána og stofnframlaga. Er það gert til að takmarka áhættu sjóðsins og tryggja samræmi við ríkisstyrkjareglur EES samningsins.