Frumvarp Þorsteins Víglundssonar, félags- og jafnfréttismálaráðherra, sem kveður á um lögfestingu skyldu til jafnlaunavottunar meðal fyrirtækja með 25 eða fleiri starfsmenn hefur verið lagt fram á Alþingi. Í fréttatilkynningu frá Velferðarráðuneytinu kemur fram að meginmarkmið frumvarpsins sé að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

Þorsteinn Víglundsson segir það afar ánægjulegt að leggja fram þetta mál. „Ég bind miklar vonir við að jafnlaunavottun verði raunverulegt tæki til að sporna við kynbundnum launamun sem er því miður enn veruleiki á Íslandi,“ er jafnframt haft eftir honum  í tilkynningunni.

„Frumvarpið er lagt fram sem breyting á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Byggt er á samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 10. janúar 2017 þar sem sérstaklega er fjallað um jafnrétti á vinnumarkaði og að spornað verði við launamisrétti vegna kynferðis með því að áskilja að fyrirtæki með 25 starfsmenn eða fleiri taki upp jafnlaunavottun,“ er jafnframt tekið fram í tilkynningu ráðuneytisins.

Í nýlegu viðtali við Þorstein í Viðskiptablaðinu segir hann að hann hafi verið rólegur yfir yfirlýsingum tveggja þingmanna stjórnarinnar sem lýst hafa yfir andstöðu við frumvarpið. „Hafandi sjálfur starfað á þeim vettvangi sem þeir horfa hvað mest til, þ.e.a.s. í atvinnulífinu, þá get ég alveg skilið sjónarmið þeirra um íþyngjandi reglugerðir, aukið eftirlit hins opinbera o.s.frv., sem ég er sjálfur andsnúinn. Ef við ætlum að vera með samkeppnishæft atvinnulíf þurfum við að tryggja því eins hagstæð rekstrarskilyrði og kostur er og að regluverk og eftirlit sé eins lítt íþyngjandi og mögulegt er. En það er mikilvægt að benda á að hér er um að ræða mál sem er í stjórnarsáttmálanum og kemur inn á þing sem mál ríkisstjórnarinnar,“ sagði Þorsteinn.