Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hyggst kynna frumvarp um breytingu á uppreist æru fyrir formönnum þeirra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi um þessar mundir. Í samtali við fréttastofu RÚV segir ráðherrann að hún vonist til þess að samstaða náist um það meðal þingmanna að samþykkja frumvarpið fyrir þinglok – en hingað til hefur engin sátt náðst um hvernig hátta skuli þingstörfum fram að kosningum.

Í frumvarpi Sigríðar verður gengið út frá því að reglur um uppreist æru verði afnumdar – en samtímis að tryggð verði heildarendurskoðun á ákvæðum laga þar sem krafist er óflekkaðs mannorðs. Að sögn Sigríðar sé það gert í þeim tilgangi að löggjafinn fjalli um það með sérstökum hætti hvernig menn öðlast borgaraleg réttindi á nýjan leik.

Fyrr í dag var greint frá því að umboðsmaður Alþingis taldi að dómsmálaráðherra hafi ekki brotið trúnaðarreglur þegar hún upplýsti forsætisráðherra um það að faðir hans hafi skrifað undir meðmælabréf til stuðnings uppreist æru sakamanns. Þetta tilkynnti Tryggvi á lokuðum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun.