*

miðvikudagur, 17. október 2018
Fólk 22. október 2017 19:04

Frystikistan er full

Lýður Þór Þorgeirsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs Arion banka.

Höskuldur Marselíusarson
Haraldur Guðjónsson

Síðustu árin hefur Lýður Þór Þorgeirsson starfað sem framkvæmdastjóri sérhæfðra fjárfestinga hjá Gamma Capital Management hf. en nú hefur hann snúið aftur til Arion banka þar sem hann vann í fyrirtækjaráðgjöf á árum áður.

„Þetta er öflugt svið, með rúmlega 30 starfsmenn, en því tilheyrir fyrirtækjaráðgjöf, markaðsviðskipti, hvort tveggja með verðbréf og gjaldeyri, og svo greiningardeild,“ segir Lýður Þór sem tekið hefur við sem framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs Arion banka.

„Ég er kampakátur með þetta, enda spennandi viðfangsefni og gríð­arleg tækifæri fram undan fyrir sviðið.“ Lýður Þór er rafmagnsverkfræðingur að mennt en hann hefur starfað í fjármálaheiminum síðan um aldamótin. „Ég datt inn í áhættustýringu eftir verkfræðina og þá var ekki aftur snúið. Eina rafmagnið sem ég snerti í dag er heima hjá mér,“ segir Lýður Þór.

„Fyrst var ég að fylgjast með markaðsviðskiptum hjá Íslandsbanka en síðan hef ég starfað á mörgum sviðum, bæði í útlánum, fyrirtækjaráðgjöf, áhættustýringu og sjóðstýringu, þannig að maður hefur komið víða við.“ Lýður Þór býr ásamt eiginkonu sinni Ragnheiði Harðardóttur, fjármálastjóra Opinna kerfa, og þremur strákum þeirra á Seltjarnarnesi þar sem hann hefur tekið virkan þátt í bæjarstjórnarmálum.

„Konan dró mig í heimabæ sinn og kann ég ákaflega vel við mig hér. Strákarnir okkar eru á aldrinum 10 til 13 ára, en það er alveg frábært að hafa þá alla á svipuðu aldursbili, og svo á ég risastóran labrador hund,“ segir Lýður Þór sem segir alla fjóra hafa gaman af því að koma með honum í aðaláhugamálið.

„Ég hef ferlega gaman af því að veiða, bæði skotveiði, og veiði ég þá aðallega rjúpur og svo er það laxinn. Síðan kom miðjustrákurinn með mér á hreindýr núna í haust, sem var alveg ferlega gaman og er frystikistan orðin full. Við tókum stóran og fallegan tarf en þetta var í fyrsta sinn sem við fórum á hreindýr.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.