Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur gefið út svokallaða opna tollkvóta vegna skorts á svína- og nautakjöti frá innlendum framleiðendum. Því er heimilt að flytja inn annars vegar svínasíður og hins vegar nautahakkefni á lægri tolli en áður í ótakmörkuðu magni.

Félag atvinnurekenda bendir þó á að í ákvæði íslenskra laga, um innflutt kjöt, sé kveðið á um að innflutt kjöt verði að hafa verið 30 daga í frysti áður en leyfilegt sé að setja það á markað. Að mati FA vinnur þetta gegn gegn þessu markmiði opnu tollkvótanna. Erfitt hefur reynst fyrir verslunina að nálgast upplýsingar hjá innlendum framleiðendum um yfirvofandi skort á kjöti og verður ekki uppvíst um hann fyrr en framleiðendur geta ekki afgreitt fyrirliggjandi pantanir.

Þá þarf að leita til atvinnuvegaráðuneytisins um útgáfu skortkvóta, en það ferli tekur að lágmarki viku. Þá er hægt að panta vörurnar, en vegna frystiskyldunnar geta liðið allt að 40 dagar þar til aftur tekst að auka framboðið á markaðnum frá því að uppvíst verður um skort. „Þetta leiðir að sjálfsögðu til þess að aukningu á framboðinu seinkar og þar með líka lækkun á verði. Frystiskyldan gengur því gegn hagsmunum neytenda,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA.