Fram kemur í Viðskiptamogganum að á næstu vikum muni Framtakssjóður Íslands (FSÍ) stofna nýjan 30 milljarða framtakssjóð. Sjóðurinn hefur fengið nafnið Hagvaxtarsjóður Íslands.

Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður FSÍ, segir í samtali við Morgunblaðið að vonir standi til þess að hlutafjárloforð fjárfesta verði frágengin í lok október næstkomandi.

Nafnið á að endurspegla þann tilgang sjóðsins að hann komi að uppbyggingu hagkerfisins eftir endurreisn síðustu ára með því að taka þátt í fjárfestingum sem auki hagvöxt og lífskjör á Íslandi. Segir Þorkell að þar skipti ekki síst máli að fjárfesta í gjaldeyrisskapandi verkefnum og slíkt ætti að styðja við áform stjórnvalda um losun fjármagnshafta.

Þorkell segir að þótt sjóðurinn verði að langstærstum hluta skipaður lífeyrissjóðum sé hann líka opinn öðrum fagfjárfestum.