Breska hlutabréfavísitalan FTSE 100 hefur nú náð sama gildi og hún hafði áður en niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um viðveru Bretlands í Evrópusambandinu urðu ljósar. Aðeins fimm dagar eru liðnir síðan breskir kjósendur kusu með útgöngu úr ESB.

Vísitalan stendur nú í 6360,06 stigum og hefur hækkað um 3,58% í dag. Morguninn eftir að kosningarnar urðu ljósar, þann 24. júní, hrundi vísitalan um meira en 6% - og þó nokkur félög lækkuðu snarplega, eins og RyanAir (~16%), Barclays (~30%) og Royal Bank of Scotland (~33%).

Þótt FTSE 100 hafi hækkað á ný hefur Sterlingspundið ekki hækkað svo hratt, en það stendur í 1,35 Bandaríkjadal á móti hverju pundi, sem eru um 166,76 íslenskar krónur á hvert pund. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá er það talsverð lægð en það hefur ekki verið svo lágt í ríflega 31 ár.