Japanska þingið kaus í gær Yasuo Fukuda sem forsætisráðherra landsins, í stað Shinzo Abe, sem sagði af sér embætti fyrr í þessum mánuði vegna ítrekaðra hneykslismála.

Fukuda hlaut 338 atkvæði frá þingmönnum neðri deildarinnar, þar sem flokkur hans, Frjálslyndi demókrataflokkurinn, hefur meirihluta. Sá stuðningur nægði Fukuda til að hljóta kjör enda þótt efri deild þingsins, en þar hefur Lýðræðisflokkur Japans meirihluta þingmanna á bak við sig, hefði hafnað skipun hans og kosið mann úr stjórnarandstöðunni.

Fukuda, sem er 71 árs, er elsti maðurinn til að gegna embætti forsætisráðherra síðan árið 1990.