Ekkert virðist draga úr eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði hér á landi þrátt fyrir að fasteignaverð sé í hæstu hæð­ um og fátt virðist benda til þess að ástandið komi til með að breytast á næstunni. Greiningardeildir spá þannig 7-8% árlegri hækkun á verði íbúðarhúsnæðis næstu tvö árin þar sem aukin innlend eftirspurn, vaxandi kaupmáttur og bati á vinnumarkaði muni styðja við áframhaldandi hækkun fasteignaverðs. Þrátt fyrir gríðarlega eftirspurn segja fasteignasalar rekstrarumhverfið erfitt.

Ástandið versnaði með haustinu

Björn Þórir Sigurðsson, eigandi og framkvæmdastjóri Fasteignasölu Reykjavíkur, segir það liggja í augum uppi að helsta ástæðan fyrir hækkandi fasteignaverði sé skortur á íbúðum. „Við sjáum það að fjöldi eigna á skrá hjá hverri fasteignasölu er margfalt minni en áður sem þýðir einfaldlega að það er minna í umferð.“ Hann segir erfitt að meta nákvæmlega hvenær ástandið fór fyrst að verða erfitt. „Sjálfsagt er þetta búið að gerast hægt og rólega en þetta fór þó ekki að láta á sér kræla af neinu viti fyrr en í haust.“

Hann viðurkennir að umhverfið er krefjandi og segir erfitt að reka fasteignasölu um þessar mundir. „Þetta er mikið hark. Það er alltaf gaman að hjálpa fólki að finna eign sem það dreymir um og langar að kaupa en rekstrarlega séð er umhverfið erfitt og þungt. Þetta er svolítið eins og að vera með fulla búð af fólki en engar vörur í hillunum. Það gæti verið alveg gósentíð en þú bara átt ekki lagerinn til að þjónusta viðskiptavinina.“

Nánar er fjallað um málið í Fasteignum, fylgiblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.