Tuttugu þjónustufulltrúar í Hörpu hafa ákveðið að segja upp störfum sínum í kjölfar fundar með Svanhildi Konráðsdóttur, forstjóra Hörpu, í gær. Fundurinn var boðaður eftir fréttir um þjónustufulltrúa í Hörpu sem ofbauð svo launahækkun Svanhildar að hann sagði upp. Stuttu eftir að laun forstjóra voru hækkuð af stjórn Hörpu, voru laun þjónustufulltrúa lækkuð.

Á fundinum staðfesti Svanhildur að þjónustufulltrúar Hörpu væru einu starfsmennirnir sem gert var að taka á sig beina launalækkun. Hópur starfsmanna sem þá þegar var launalægstur allra starfsmanna Hörpu.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá hafnaði stjórn félagsins því að laun Svanhildar hefðu verið hækkuð um 20% á þeirri forsendu að samið hefði verið við hana um hærri laun en Kjararáð hafði úrskurðað um starfið. Komu fréttir af launahækkuninni og uppsögn eins þjónustufulltrúa, í kjölfar þess að Viðskiptablaðið sagði frá því að rekstur Hörpu hefði tapað 243 milljónum þrátt fyrir að framlag ríkis og borgar jókst um 260 milljónir á síðasta ári.

Ósáttir við skýringar Svanhildar

Eftir fundinn voru margir þjónustufulltrúar mjög ósáttir við skýringar forstjórans, þá sérstaklega um það af hverju engir aðrir starfsmenn hússins hafi þurft að taka á sig launalækkun.

Ákváðu því allir þjónustufulltrúar sem sátu fundinn að segja þegar upp störfum, 15 talsins og nokkrir aðrir í kjölfarið. Meðal þeirra sem sögðu upp voru t.d. nokkrir búnir að vinna í Hörpu frá opnun og flestir með langan starfsaldur, meðal annars allir vaktstjórar.

Lækkanir sagðar hluti af samstilltu átaki

Svanhildur talaði um að á sínum tíma eða í september 2017, hefðu launalækkanir þjónustufulltrúa verið mildar aðgerðir sem væru hluti af samstilltu átaki um að rétta af fjárhag Hörpu.

Af þessu má sjá að ákveðið misræmi er greinilega í þeirri staðhæfingu þar sem aðeins lægst launuðu starfsmenn hússins hafa tekið á sig beina launalækkun segir í fréttatilkynningu frá hópnum.

Starfi breytt úr sætavísum með auknum verkefnum

„Fyrir u.þ.b tveimur árum var starfi okkar breytt úr sætavísum í starf þjónustufulltrúa. Þessari breytingu fylgdu aukin verkefni sem fólust til dæmis í því að ganga frá tækjum og búnaði eftir viðburði,“ segi í tilkynningunni.

„Við það skapaðist hagræðing þar sem ekki þurfti lengur að kalla út aðra starfsmenn til þessara verka en þjónustufulltrúar fengu hækkun á sínum launum í samræmi við þessi auknu verkefni. Þann 1. janúar tóku þjónustufulltrúar á sig umtalsverða launalækkun í góðri trú um að það myndu aðrir starfsmenn Hörpu líka gera.

Á fundinum upplifðu þjónustufulltrúar ákveðna vanþekkingu á starfi sínu á meðal stjórnenda Hörpu sem sátu fundinn. Það að segja upp starfinu hjá Hörpu er mjög stór ákvörðun enda þykir okkur öllum mjög vænt um starfið okkar, húsið og gesti þess.“

Frekari fréttir af málefnum Hörpu: