Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga hefur boðað til fundar þar sem fjallað verður um frumvarp sjávarútvegsráðherra um úthlutun makrílkvóta til næstu sex ára.

Á fundinum verður meðal annars rætt hvaða leiðir séu í boði við úthlutun kvótans og kostir þeirra og gallar. Til máls munu taka þeir Þorkell Helgason, stærðfræðingur og einn af aðstandnendum Þjóðareign.is, og Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims hf.

Að erindum loknum verða pallborðsumræður með spurningum úr sal, en þar munu sitja fyrir svörum þeir Gunnar Tryggvason, sérfræðingur hjá KPMG, Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, Þorkell Helgason og Guðmundur Kristjánsson.

Fundurinn fer fram á Grand hóteli á morgun og mun standa milli kl. 12 til 13:05. Hann er öllum opinn og greiða félagsmenn FVH 3.950 kr. í þátttökugjald en aðrir 5.950 kr. Skráning fer fram á fvh.is.