Á miðvikudaginn næstkomandi verður haldinn hádegisfundur á vegum Félags viðskipta og hagfræðinga þar sem farið er yfir gjaldtöku í ferðaþjónustu og hvaða leið sé skynsamlegust. Daði Már Kristófersson forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands heldur erindi um mismunandi leiðir gjaldtöku og Þórunn Elísabet Bogadóttir aðstoðarritstjóri Kjarnans opnar fundinn og verður fundarstjóri. Fundurinn fer fram á Grand hótel Reykjavík á miðvikudaginn 22. mars á milli 12 til 13:15. Hægt er að nálgast nánari upplýsingar hér.

„Á síðustu árum hefur erlendum ferðamönnum á Íslandi fjölgað gífurlega hratt og samhliða hefur mikil uppbygging átt sér stað í starfsemi tengdri ferðaþjónustu. Vaxtarverkir eru þó til staðar og má þar einna helst nefna ójafna dreifingu ferðamannastraumsins, aukið álag á innviði og þann kostnað sem því fylgir.

Gjaldtaka hefur verið nefnd sem möguleg lausn við þessum vandamálum, en umdeilt er hvaða leið sé skynsamlegust í þeim efnum. Félag viðskipta- og hagfræðinga mun fjalla um þetta álitamál út frá sjónarhóli hagfræðinnar. Hvaða hagrænu áhrif hafa ólíkar gjaldtökuleiðir? Og hvaða leið er best til þess fallin að tryggja farsæla framtíð íslenskrar ferðaþjónustu?“ segir í frétt um málið.

Hér má sjá dagskrá fundarins:

–Þórunn Elísabet Bogadóttir aðstoðarritstjóri Kjarnans og fundarstjóri opnar fundinn
–Daði Már Kristófersson forseti félagsvísindasviðs HÍ heldur erindi um mismunandi leiðir til gjaldtöku

Að erindi Daða loknu verða spurningar leyfðar úr sal og framsögumaður ásamt þátttakendum í panel verða til svara. Í pallborðinu sitja auk Daða:

–Ólafur Örn Haraldsson – Þjóðgarðsvörður á Þingvöllum
–Rannveig Grétarsdóttir – Framkvæmdastjóri Eldingar
–Anna Dóra Sæþórsdóttir – prófessor í ferðamálafræði við HÍ