Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, furðar sig á umfjöllun Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um náttúruverndarsamtök í nýútkominni skýrslu um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða. Þar sé slíkum samtökum líkt við hryðjuverkasamtök. Hann telur jafnframt að sá hluti skýrslunnar sem snýr að hvalveiðum og hugsanlegum ávinningi af slíkum veiðum þurfi að skoðast sérstaklega, enda vistkerfi hafsins flóknara fyrirbæri en svo að draga megi afdráttarlausar ályktanir án nánari skoðunar.

Þetta segir Guðmundur í viðtali við fréttastofu Rúv, en skýrslan er umdeild einmitt vegna þessara atriða sem ráðherra nefnir.

„Í fyrsta lagi furða ég mig á umfjöllun um náttúruverndarsamtök í þessari skýrslu þar sem þeim er líkt við hryðjuverkasamtök. Ég skil ekki alveg hvaða erindi það á inn í þessa skýrslu, hvað er þar að baki,“ sagði Guðmundur Ingi í viðtali við fréttamann Rúv að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Í skýrslunni segir meðal annars um náttúruverndarsamtök.

„Líklega stendur Íslandi eins og mörgum öðrum löndum nokkur ógn af samtökum sem fremja hryðjuverk í nafni náttúruverndar. Ekki verður þó séð að þessi ógn sé af þeirri stærðargráðu að Íslendingar eigi að hætta að veiða hvali. Auk þess er hætt við að fleiri kröfur gætu komið í kjölfarið, ef slíkum samtökum finnst að þau hafi náð árangri. Benda má á að mörg lönd í heiminum hafa sett sérstök lög til að vinna gegn uppgangi hryðjuverkasamtaka. Ef til vill er tilefni til slíkrar lagasetningar á Íslandi.“

Hvað varðar hvalveiðar þá er nokkuð ítarlega fjallað um hugsanleg áhrif hvalveiða út frá afráni hvala. Er þar dregin sú ályktun að ef valdir hvalastofnar væru 40% minni þá gæti það jafnvel skilað þjóðarbúinu milljörðum í auknum útflutningstekjum á sjávarfangi.

Þetta hefur verið gagnrýnt úr ýmsum áttum, og sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar hafa efast um að yfirleitt sé hægt að gefa sér ávinning út frá núverandi þekkingu og upplýsingum; málið sé einfaldlega allt of flókið til þess.

Við lestur skýrslunnar virðast þessar vangaveltur vera í besta falli óraunhæfar. Ef fækka ætti þeim hvalastofnum sem hér um ræðir þyrfti stórfelldar veiðar, enda þyrfti að drepa út stofnunum þúsundir dýra á tiltölulega stuttum tíma.

Miðað við veiðigetu hvalveiðiskipa, bæði þeirra sem hafa stundað veiðar við Ísland síðustu áratugina og sögulega, þá er raunhæft að áætla að hvert skip geti veitt um 100 dýr þann tíma sem veiðar eru hér mögulegar. Því er ljóst að til fækkunar hvala á þeim skala sem um ræðir þyrfti fjölþjóðlegt átak þar sem tugir skipa þyrftu að koma að málum.

Stofn langreyðar er í dag metinn um 40.000 dýr á því hafsvæði sem hér er horft til en frá 1948 til 1986 veiddust 16.716 hvalir við Ísland af nokkrum tegundum – aðallega langreyður og hrefna. Veiði þessara áratuga og stofnstærðir hvala gefa því til kynna hvað þyrfti til að fækka í stofnunum – nokkuð sem erfitt er að ímynda sér að vilji sé til að gera sama út frá hvaða mælikvörðum það er.

í gagnrýni á skýrsluna er það nefnt ítrekað að eðli hennar hefði krafist þess að hún væri ritrýnd af sérfræðingum í náttúruvísindum. Það var ekki gert heldur kemur fram á blaðsíðu tvö í skýrslunni að hún var eingöngu ritrýnd af tveim óháðum hagfræðingum.