Fyrr á árinu tóku þrettán sveitarfélög á norðurlandi tilboðum fjárfestingarfélagsins KEA í hlutabréf þeirra í Tækifæri hf. sem byggðu á kaupverði sem Akureyrarbær hafði samþykkt í sinn eignarhlut í fyrirtækinu. Þetta kemur fram í frétt DV um málið .

Viðurkenna mistök

Salan hafði átt sér stað í lokuðu söluferli og hefur hún verið harðlega gagnrýnd. Í gær viðurkenndi bæjarráð Akureyrar að það hefðu verið mistök að fara ekki með bréfin í opið söluferli.

Alls keypti KEA um 17% hlut í félaginu en það fjárfestir í nýsköpun á norðurlandi. Eina sveitarfélagið sem hafnaði tilboði KEA í eignarhluti sína í Tækifæri var Dalvíkurbyggð en sveitarstjórnarmenn bæjarfélagsins töldu ekki tímabært að selja.

Metnar á rúman milljarð króna

Eignir Tækifæri eru metnar á rétt rúman milljarð króna, en þar af er 41% hlutur í Jarðböðunum við Mývatn. Í fyrra var metár hjá því félagi og skilaði það 238 milljón króna hagnaði.

Sveitarfélögin fjórtán fengu bréf frá KEA þar sem gerð voru sambærileg tilboð í þeirra eignarhluti í fjárfestingarfélaginu og Akureyrarbær hafði samþykkt. Í hluthafahópnum voru meðal annars sveitarfélögin Skagafjörður, Fjallabyggð, Norðurþing, Langanesbyggð og Eyjafjarðarsveit.

Ákveðið að fylgja nágrönnunum

Skagafjörður fékk 15,8 milljónir króna fyrir sinn 2,07% hlut og Fjallabyggð fékk 2,2 milljónir fyrir sinn 0,29% hlut.

„Norðurþing átti hlut fyrir um tíu milljónir króna og því tilboði var tekið. Það var ákveðið að fylgja nágrönnum okkar í þessu,“ segir Óli Halldórsson, formaður byggðarráðs Norðurþings um söluna á 1,2% hlut sveitarfélagsins í samtali við DV.