Samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallups stendur stuðningur við ríkisstjórnina í stað milli mánaða, en um helmingur þeirra sem tóku afstöðu segjast styðja hana.

Helsta breytingin á fylgi flokka milli mánaða er að fylgi Samfylkingarinnar eykst um tæplega þrjú prósentustig. Rúmlega 19% segjast myndu kjósa Samfylkinguna og er það mesta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með síðan í janúar 2015. Fylgi annarra framboða breytist lítið eða á bilinu 0,1-1,9 prósentustig.

Nær 23% segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, rösklega 12% Pírata, næstum 12% Vinstri græn, liðlega 10% Viðreisn, tæplega 9% Miðflokkinn, ríflega 8% Framsóknarflokkinn, nær 6% Flokk fólksins og liðlega 1% segist myndu kjósa aðra flokka en þá sem sæti eiga á Alþingi í dag.

Rúmlega 9% svarenda segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag og rösklega 8% taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp.