Efasemdir um efnahagsvöxt í Kína fá nú byr undir báða vængi. Fylkisstjóri Liaoning-fylkis í Kína, Chen Qiufa, sagði að hann og starfsmenn fylkisins hefðu falsað hagvaxtartölur Liaoning til margra ára. Hann segir þetta í viðtali við kínverska miðilinn Xinhua.

Sérfræðingar hafa löngum tekið hagvaxtartölum frá Kína með fyrirvara, en Chen viðurkennir fúslega að ríkið hafi hækkað tekjur Liaoning, sem er stórt iðnaðarhérað, um allt að 100%. Í opinberum tölum voru tekjur ríkisins sagðar 2,4 milljarðar yuan, en eftir endurskoðun þá eru þær nær 1,1 milljarði yuan.

Staðan í Liaoning er ekki góð eins og sakir standa en samkvæmt opinberum gögnum þá dróst efnahagur ríkisins saman og fyrirtæki börðust í bökkum. Það stóð sig verst af öllum 31 fylkjum Kína á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs.

Viðskiptablaðið hefur áður gert hagvöxt í Kína að umfjöllunarefni sínu. En hagvöxtur í Kína hefur mælst 6,7% á þriðja ársfjórðungi, þrjú ár í röð. Í umfjöllun The Economist, er þessari staðreynd gefinn gaumur og velt upp möguleikanum hvort að þetta séu eðlilegar tölur. Það er þó ekki ómögulegt að þessar tölur raðist svona upp vegna tilviljunar.