*

fimmtudagur, 25. apríl 2019
Fjölmiðlapistlar 30. júní 2018 13:43

Fýluferðir

Blaðamaður er fulltrúi fjölmiðils síns, slæm framkoma hans getur hæglega kastað rýrð á miðilinn og skaðað trúverðugleika beggja.

Andrés Magnússon
epa

Þó að leikur Íslendinga og Króata í heimsmeistarakeppninni í fótbolta hafi verið Íslendingum vonbrigði á margan hátt verður ekki annað sagt en að landsliðið geti borið höfuðið hátt fyrir góða og drengilega frammistöðu í erfiðri keppni við stórþjóðir. Af þeirri ástæðu gleðst þjóðin einnig og enginn þeirra Íslendinga, sem aftur snúa frá Rússlandi telur sig hafa farið fýluferð. 

Nema kannski einn, sem er Hjörtur Hjartason íþróttafréttaritari Sýnar, sem nú hefur sagt upp störfum. Hann var kallaður heim eftir að hafa rofið áfengisbindindi, komið ölvaður til blaðamannafundar landsliðsins um liðna helgi og aukin heldur lagði Ríkisútvarpið fram kvörtun á hendur honum vegna áreitis í garð Eddu Sifjar Pálsdóttur, íþróttafréttamanns þess. Af þeim sökum sagði Hjörtur upp starfi sínu í gær, en um það sagði hann m.a. eftirfarandi í stuttri yfirlýsingu á Facebook: 

Áfengisneysla er sannarlega engin afsökun fyrir slíkri hegðun. Það er bæði sanngjörn og sjálfsögð krafa að fólki standi ekki stuggur af kollegum sínum og hárrétt að krefjast þess að öruggt vinnuumhverfi sé sett í fyrsta sæti, líkt og hópur kvenna í fjölmiðlastétt hefur gert. 

Þar vísaði hann til þess að 75 fjölmiðlakonur undirrituðu opinbera yfirlýsingu, þar sem þess var meðal annars krafist að yfirmenn íslenskra fjölmiðla tryggðu öryggi þeirra og annarra starfsmanna á vinnustað: Við mótmælum því að í stéttinni starfi maður sem hefur ítrekað áreitt og beitt samstarfsfólk sitt ofbeldi. Eftir þá yfirlýsingu og opinbera umræðu, sem sigldi í kjölfarið, mátti ljóst vera að Hirti yrði ekki sætt áfram. Þetta var mjög óvenjuleg yfirlýsing og að sumra mati ógeðfelld, en á móti kemur að enginn vafi leikur á að tilefnið var ógeðfellt í meira lagi og vonandi ekki síður óvenjulegt. 

Ástæðan fyrir því að sumir fundu til ónota vegna yfirlýsingarinnar var ekki sú að þeir vildu verja framkomu Hjartar á nokkurn hátt, heldur hin að fyrir liggur að hann á við áfengisvanda að stríða, viðurkenndan sjúkdóm, sem honum hefur gengið misvel að halda í skefjum. Hann er ekki einn um það og í samfélaginu er ríkur vilji til þess að hjálpa fólki til þess að ráða bug á áfengissýki, en gjaldi ekki þess veikleika síns. Í þeim efnum hefur orðið mikilvæg hugarfarsbreyting á Íslandi, ekki síður í atvinnulífi en meðal þjóðarinnar. 

Þar í felst þó ávallt að fólk taki til í sínum málum, leiti sér hjálpar og standi sig. Takist það ekki geta þeir ekki vænst þess að samferðamennirnir, samstarfsfólk eða vinnuveitendur, sýni þeim eilífan skilning.

Í þessu tilviki á það hins vegar ekki við. Áfengisvandinn og þolgæði vinnuveitanda gagnvart honum er eitt, ítrekað áreiti eða ofstopi er annað. Slíkt er ólíðandi á hvaða vinnustað sem er, algerlega óháð öðrum aðstæðum. 

Það á alls ekki síður við á fjölmiðlum, þar sem stærstur hluti starfans snýst um mannleg samskipti, bæði við vinnufélaga, viðmælendur, umfjöllunarefni og almenning. Blaðamaður er fulltrúi fjölmiðils síns, slæm framkoma hans getur hæglega kastað rýrð á miðilinn og skaðað trúverðugleika beggja. 

Vel má vera að framkoma manna sé óaðfinnanleg, nema þegar þeir eru undir áhrifum, en það er þá hluti skýringar, ekki afsökun. Rétt eins og í réttarsölum dregur áfengisneysla ekki úr ábyrgð manna á verkum sínum. Menn geta einnig velt því fyrir sér ef blaðamaður kæmi til blaðamannafundar og bryti þar og bramlaði í bræðiskasti, öldungis alsgáður, hvort hann yrði ekki látinn taka pokann sinn. 

Auðvitað er þetta harmsaga, en það er morgunljóst að við svo búið mátti ekki standa. Yfirlýsing fjölmiðlakvennanna kann að hafa verið sérkennileg, en það sem var sérkennilegast hvers vegna það þurfti hana til þess að leiða til hins augljósa og óhjákvæmilega.

 

Hæstiréttur staðfesti á þriðjudag dóm héraðsdóms Reykjavíkur í máli tveggja manna gegn 365 miðlum ehf. og fjórum blaða- og fréttamönnum þeirra vegna Hlíðamálsins svokallaða. Áður hefur verið um það fjallað í þessum dálkum, en það varðaði æsifréttir, einkum í Fréttablaðinu, af ætluðum kynferðisbrotum í Hlíðunum síðla árs 2015. Málið var rannsakað en síðan fellt niður. 

Í hinum staðfesta dómi héraðsdóms voru ýmis ummæli dæmd dauð og ómerk, m.a. annars uppsláttarfyrirsögn á forsíðu um að íbúðin hefði verið „útbúin til nauðgana“, sem og frásagnir af því að „árásirnar [hafi verið] hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisverka“, sem enginn fótur hafi reynst fyrir. 

Fréttamennirnir sem um ræðir eru þau Nadine Guðrún Yaghi, Heimir Már Pétursson, Stefán Rafn Sigurbjörnsson og Þórhildur Þorkelsdóttir, en þau voru öll dæmd til að greiða mönnunum bætur, Nadine Guðrún þó hæstar, 700.000 kr. til hvors stefnanda. Það kann að virðast harður dómur, en þá verður að líta til hins, að afleiðingarnar fyrir mennina, sem um var fjallað, voru bæði miklar og alvarlegar. Ekki síður skiptir hitt þó máli að Fréttablaðið (og aðrir miðlar í fjölmiðlasamsteypunni, sem þá hét 365) fór yfir margvísleg mörk í fréttum sínum. 

Af dómum bæði héraðsdóms og Hæstaréttar virðist sem hinir stefndu hafi engar málsbætur átt sér. Fjölmiðlarýnir gerir í sjálfu sér ekki athugasemdir við það, en það er ástæða til þess að setja út á ábyrgð stjórnenda miðlanna eða öllu heldur ábyrgðarleysi þeirra. 

Þegar á frumstigi fréttanna var ljóst að það var eitthvað bogið við þær. Fréttin breytti um stefnu, frásagnir mjög gildishlaðnar og þótt stundum væri vísað til heimilda virtist hún aðeins ein. Allt þetta hefði átt að vera fréttastjóra og/eða ritstjóra tilefni til þess að grennslast betur fyrir um vinnubrögðin, efnistök og framsetningu. Það átti ekki síður við vegna þess að Nadine var tiltölulega óreynd í blaðamennsku, en fjallaði þarna um einstaklega viðkvæm mál af miklum þrótti á forsíðu. Fréttastjóri og aðrir samstarfsmenn hefðu því ekki aðeins átt að hafa betri gætur á henni og fréttunum, þeim ber sérstök leiðbeiningarskylda við nýja blaðamenn. Það er ekki í lögum, en óskrifuð regla á öllum fjölmiðlum. Rétt eins og á hvaða vinnustað öðrum.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim