Fjölmargir lögðu leið sína í Garðabæinn á þriðjudaginn þegar Costco opnaði loks dyr sínar fyrir almenningi. Ljóst er að Íslendingar voru spenntir fyrir komu alþjóðlega risans en um 40.000 manns höfðu þegar greitt fyrir meðlimakort fyrirtækisins áður en verslunin var opnuð.

Viðtökur komu ekki á óvart

Brett Vigelskas, verslunarstjóri Costco á Íslandi, var ánægður með viðtökur Íslendinga en sagði þær þó ekki hafa komið sér á óvart. „Ég er mjög ánægður með opnunina. Viðbrögðin eru í raun í samræmi við það sem ég hafði búist við. Ég er búinn að vera á landinu frá því í október og það er alveg ljóst að það hefur verið að byggjast upp mikil spenna fyrir versluninni í þjóðfélaginu að undanförnu,“ segir Vigelskas.

Þá segir hann verslunina hafa verið vel undirbúna og að fyrstu kaup Íslendinga hafi ekki komið á óvart. „Það eru nokkrar vörur sem hafa verið vinsælastar, en þar má helst nefna grill, sjónvörp, KitchenAid hrærivélar og fleira í þeim dúr – í raun allar þessar helstu vörur sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum að undanförnu. Við vorum mjög vel undirbúin og opnunin hefur verið skemmtileg og gengið mjög vel “

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.