*

fimmtudagur, 25. apríl 2019
Innlent 12. september 2018 13:35

Fyrirtæki hér á landi skammt á veg komin

Um 20% fyrirtækja hér á landi eru talin á byrjunarreit stafrænna umskipta sem er ívið hærra hlutfall en á hinum Norðurlöndunum.

Ritstjórn
Úttekt Microsoft og Capacent á stöðu stafrænna umskipta hjá íslenskum fyrirtækjum kynnt í gær.
Aðsend mynd

Microsoft á Íslandi og Capacent kynntu í gær nýja skýrslu í Gamla bíó um stöðu stafrænna umskipta (e. digital transformation) innan íslenskra fyrirtækja. Er þetta í fyrsta sinn sem gerð er úttekt á stöðu þessara mála á Íslandi og gefa niðurstöður til kynna að íslensk fyrirtæki séu ekki jafn langt á veg komin í stafrænum umskiptum og fyrirtæki á öðrum Norðurlöndum.

Microsoft hefur unnið samskonar skýrslur um stöðu stafrænna umskipta í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og á Norðurlöndunum, utan Íslands, í heild sinni. Markmið Microsoft og Capacent með gerð skýrslunnar var að fá mynd af stöðu stafrænna umskipta á Íslandi og stöðumat íslenskra stjórnenda með svipuðum hætti og Microsoft hefur látið gera annars staðar á Norðurlöndunum. Skýrslan byggir á djúpviðtölum og könnun á meðal æðstu stjórnenda 20 af stærstu fyrirtækjum á Íslandi.

Í skýrslunni voru fyrirtækin einnig staðsett á svokölluðu breytingaskeiði sem sýnir að lítill hluti fyrirtækjanna er langt kominn þegar kemur að stafrænum umskiptum og ekkert þeirra er í óskastöðu. Um 20% fyrirtækjanna eru talin á byrjunarreit stafrænna umskipta sem er ívið hærra hlutfall en á hinum Norðurlöndunum. Einnig kom í ljós að um 80% af stjórnendum íslensku fyrirtækjanna mátu stafræn umskipti sem eitt af helstu forgangsmálum en það þykir engu að síður áhyggjuefni að 20% gerðu það ekki.

Aðalfyrirlesari fundarins var Nana Bule, framkvæmdastjóri hjá Microsoft í Danmörku og talaði hún um reynslu Dana af stafrænum umskiptum og bar saman niðurstöður íslensku könnunarinnar við þá dönsku og norrænu. Hún talaði um þær áskoranir sem dönsk fyrirtæki standa frammi fyrir, svo sem hver ber ábyrgð á stafrænum umskiptum innan fyrirtækisins og hvaða þættir keyra áfram þessa breytingu. Að lokum lagði hún áherslu á að stafræn umskipti snúast ekki endilega um tækni heldur hugarfarsbreytingu innan fyrirtækisins.

Fundinum lauk með pallborðsumræðum þar sem Birna Ósk Einarsdóttir framkvæmdastjóri stefnumótunar og viðskiptaþróunarsviðs Icelandair, Orri Hauksson forstjóri Símans og Jón Björnsson stjórnarformaður Krónunnar ræddu um stöðu stafrænna umskipta á Íslandi.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim