Gunnsteinn R. Ómarsson bæjarstjóri í Ölfusi, segir ný tækifæri vera að skapast í uppbyggingu fyrirtækjareksturs í bænum, bæði vegna tilkomu vikulegra siglinga Smyril Line Cargo frá Rotterdam til bæjarins en einnig vegna þéttingarstefnu Reykjavíkurborgar.

„Ég held hún hafi áhrif á fyrirtækin á höfuðborgarsvæðinu, sem við sjáum á þeim fyrirtækjasvæðum sem verið er að taka undir skipulagða íbúðarbyggð, að þá eru fyrirtæki farin að vera svolítið á hrakhólum, sem og auðvitað þróun fasteignaverðs í borginni. Fyrirtæki hljóta að fara að hugsa sér til hreyfings og fara á jaðarsvæði höfuðborgarsvæðisins, eða jafnvel úthverfi þess, sem Þorlákshöfn er,“ segir Gunnsteinn sem segir mögulega afleiðingu af þéttingarstefnuni vera að fólk dreifist enn frekar og stækki jaðarsvæðið.

„Ég ímynda mér það og svo er auðvitað fjölgun ferðamannanna og nýting íbúðarhúsnæðis í höfuðborginni sem er að valda þrýstingi á bæði verð og á það að jaðarsvæðið er að stækka. Við erum með lóðir tilbúnar fyrir fyrirtæki auk frekara skipulags á teikniborðinu sem er í kynningu, en við höfum fundið fyrir auknum áhuga fyrirtækjaeigenda á bænum til framtíðaruppbyggingar.

Tilkoma reglulegra siglinga til Evrópu héðan býr svo til ákveðna möguleika, en það bæði styttir auðvitað flutningstímann og siglingaleiðina að sigla héðan til Evrópu heldur en frá höfuðborgarsvæðinu.“

Gunnsteinn segir að í staðinn fyrir að vörurnar séu settar í gám í þessu skipi séu þær settar í vagna. „Það er meiri sveigjanleiki í því, til dæmis í umfangi farmsins."

Ungt samfélag

Gunnsteinn segir að miðað við að vera sveitarfélag úti á landi, þá sé meðalaldurinn í bænum lágur, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur bærinn haldið úti auglýsingaherferð til að vekja athygli á bænum sem stað til að setjast að.

„Við vorum einmitt að ræða þetta á dögunum, það eru auðvitað eldri borgarar hér, en ég held það séu bara þrír í sveitarfélaginu sem eru yfir nírætt til dæmis,“ segir Gunnsteinn, en um 18,6% íbúanna eru 60 ára og eldri, meðan 26,18% þeirra eru yngri en 20 ára.

„Ég hvet fólk til að skoða Þorlákshöfn sem framtíðarbúsetukost. Hér er blómlegt mannlíf, mikið gert fyrir börnin, og mikið og öflugt íþrótta- og tómstundastarf, sem bara getur eflst með fleira fólki, en það er sú þróun sem við höfum verið að sjá á síðustu mánuðum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .