Síðastliðinn föstudag var 10-11 tilkynnt um uppsögn á samningum um vöruafgreiðslu frá þremur félögum í eigu Haga hf., fyrirtækjunum Aðföngum, Ferskum kjötvörum og Bönunum. Morgunblaðið segir frá. Árni Pétur Jónsson, forstjóri Tíu ellefu ehf., segir að um aðgerð sé að ræða sem sé sett fram til að meiða fyrirtækið og að hún sé mjög alvarleg þar sem um sé að ræða langstærsta aðilann á matvörumarkaðnum sem sé að beita sér gegn tiltölulega litlu fyrirtæki.

„Okkar skoðun er sú að þessi uppsögn sé ólögleg og við munum fá þar til bæra aðila til að skera úr um hvort svo sé eða ekki,“ segir Árni Pétur. Uppsagnirnar taka gildi frá og með næstu mánaðamótum.

Finnur Árnason, forstjóri Haga, staðfesti uppsagnirnar við Morgunblaðið en vildi lítið um þær segja annað en að samningurinn hefði verið tímabundinn og að honum hefði verið sagt upp á grundvelli ákvæða í honum.

Árni Pétur segir að við sölu Eignabjargs, félags í eigu Arion banka, á 10-11 hafi komið fram í sölugögnum að fyrirtækinu fylgi langtímasamningar við þessi þrjú fyrirtæki Haga og að þeir séu óuppsegjanlegir til margra ára.