Útlit er fyrir mun hægari vöxt á árinu 2019 en undanfarin fimm ár og þar með lýkur hagsveiflunni sem hófst 2013 og hefur reynst lífseigari en margir töldu. Árin 2013-2017 var hagvöxtur að jafnaði 4,4% og Íslandsbanki áætlar að hagvöxtur á síðasta ári hafi verið 3,7%. Árið 2019 reiknar bankinn með að hagvöxtur verði 1,1%.

Samkvæmt spánni munu drifkraftar vaxtar undanfarinna missera allir verða í einhvers konar hvíldarstöðu á árinu. Vöxtur einkaneyslu verður hægur, vöxtur þjónustuútflutnings verður lítill og samdráttur verður í fjárfestingu atvinnuvega frá fyrra ári.

Bankinn reiknar þó ekki með að hagkerfið sé á leið í djúpa niðursveiflu heldur séu horfur á að vöxtur glæðist að nýju á árinu 2020 en þá áætlar bankinn að hagvöxtur verði 3,1%.

Gengi krónu lækkaði um nærri 7% á seinasta þriðjungi síðasta árs en að mati greiningardeildar bankans var þessi gengishreyfing fremur af hinu góða og til þess fallin að minnka hættu á vaxandi ytra ójafnvægi. Ýmis rök séu þó fyrir því að raungengi krónu verði áfram fremur hátt. Hrein eignastaða hagkerfisins sé betri en hún hafi verið áratugum saman og Seðlabankinn hafi úr myndarlegum gjaldeyrisforða að spila. Stoðir hagkerfisins séu í flestum skilningi traustar og horfur séu um ágætan vöxt til lengri tíma. Því ætti áhugi erlendra fjárfesta á Íslandi að vera nægur til að vega upp það útflæði vegna vilja lífeyrissjóðanna til að fjárfesta út fyrir landsteinana sem ekki verði fjármagnað með viðskiptaafgangi.

„Allt þetta ætti að vega til tiltölulega hás raungengis út áratuginn,“ segir í nýrri þjóðhagsspá greiningar Íslandsbanka.