„HEY Digital býður upp á þjónustu sem snýr að sýnileika fyrirtækja á netinu,“ segir Styrmir Másson, annar stofnenda og framkvæmdastjóri HEY Digital, sem var nýverið sett á laggirnar. Hann bætir við að fyrirtækið aðstoði fyrirtæki við stafræna markaðssetningu á netinu.

Framkvæmdastjórinn útskýrir að fyrirtækið bjóði upp á þrenns konar þjónustu til að byrja með: „Í fyrsta lagi erum við að aðstoða fyrirtæki við að auka sýnileika á leitarvélum. Það er svokölluð leitarvélabestun. Í öðru lagi erum við að að­ stoða fyrirtæki við að setja upp auglýsingaherferðir á netinu, aðallega á Google. Og svo í þriðja lagi erum við að setja upp vefsíður fyrir fyrirtæki og einnig að taka við vefsíðum og aðstoða fyrirtæki við það að bæta núverandi vefsíður,“ segir Styrmir.

Meðstofnandi Styrmis heitir Daði Magnússon. Áður unnu þeir saman hjá Arctic Adventures þar sem að þeir fengust meðal annars við vefsíðugerð og að skilja kúnnann betur og finna leiðir til að auðvelda kúnnum með vefsíður og slíkt.

Sérsniðið að nútímaneytendum

Styrmir leggur áherslu á mikilvægi þess að skilja nútíma-neytandann, sem leitar oftast að valkostum á vefnum áður en vörur eða þjónusta er keypt. „Nánast öll fyrirtæki í dag eiga að hugsa út í þessi mál,“ segir Styrmir. Hann bætir við að það séu sér í lagi fyrirtæki sem selja vörur og þjónustu á netinu. „Málið er að neytandinn í dag les sér mjög mikið til áður en hann kaupir vörur og þjónustu á netinu,“ segir hann.

„Ef síðan þín finnst ekki á fyrstu síðu á leitarvélum – þá er mjög ólíklegt að neytandinn finni það sem hann er að leita að. Það er þessi leitarvélabestun. Svo þegar neytandinn er kominn inn á síðuna þá viljum við að hann finni það sem hann er að leita að og gangi frá kaupunum,“ útskýrir Styrmir.

Farnir í loftið

Styrmir segir að fyrirtækið hyggist einbeita sér að ofangreindum þjónustuþáttum til að byrja með – en stefnir þó á að bæta við fleiri leiðum til að aðstoða fyrirtæki.

„Við finnum það strax að það er ýmislegt annað sem fyrirtæki þurfa. Það eru fullt af öðrum flötum á starfrænni markaðssetningu og við munum hægt og ró­ lega bjóða upp á meiri þjónustu,“ bætir hann við.

Vefsíðan heydigital.is er farin í loftið og þar með erum við farnir af stað. Við byrjuðum 1. september og erum strax komnir með nokkur verkefni. Þetta fer rosalega vel af stað og við erum bjartsýnir fyrir framtíðinni,“ bætir Styrmir við að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .