Að óbreyttu ástandi gæti kerfisáhætta í fjármálakerfinu aukist sem og umframeftirspurn eftir lánsfé vegna íþyngjandi regluverks í rekstrarumhverfi bankanna. Þá er mikilvægt að fyrirtækjaskuldabréfamarkaður sé til staðar til að fjármagna fyrirtækjarekstur.

„Við erum að auka áhættu fjármálakerfisins ef við náum ekki að byggja upp fyrirtækjaskuldabréfamarkað,“ segir Magnús Harðarson, forstöðumaður viðskiptasviðs Kauphallarinnar.

„Það sem þrýstir á mikilvægi þess er að á næstu misserum mun þrengja að bankafjármögnun vegna herts regluverks. Bankarnir eru vel fjármagnaðir í augnablikinu og jafnvel yfirfjármagnaðir, og það mun nánast örugglega heilmikið verða greitt út úr þeim. Þá munu þessar hertu eiginfjárkröfur sem komu inn með Basel III og viðeigandi Evrópureglum fara að bíta. Þá verða fyrirtæki að geta dreift áhættu á fjármögnunarhliðinni.“

Stór tækifæri á First North

Magnús segist þó bjartsýnn á framtíðarþróun fyrirtækjaskuldabréfamarkaðarins á Íslandi.

„Að grunni til er öll sú umgjörð sem er hér um verðbréfamarkaðinn mjög góð, eins og í upplýsingagjöf, regluverki og eftirliti. Við höfum virkan markað með ríkisskuldabréf, sem myndar góðan grunn undir verðmyndun á öðrum bréfum. Staða lífeyrissjóðanna er einnig sterk. En hins vegar erum við ennþá að byggja upp traustið. Það vantar þekkingu meðal innlendra fyrirtækja um það að fara á markað, hvort sem það er hlutabréfamarkaður eða skuldabréfamarkaður. Við í Kauphöllinni erum þó að reyna að byggja hana upp,“ segir Magnús.

Fyrir utan þörfina á því að auka fjölbreytni í hópi útgefenda er einnig þörf á fjölbreyttari flóru meðal fjárfesta.

„Við þurfum að einhverju leyti að líta út fyrir landsteinana þannig að erlendir fjárfestar komi inn á markaðinn. Þar er maður kannski svolítið ósáttur við það hvernig bindiskyldan á innflæði fjármagns á skuldabréfamarkaðinn var útfærð hjá Seðlabankanum, því hún er réttlætt á grunni kviks fjármagns. Það er svolítið sérstakt að Seðlabankinn skuli leggja hana líka á fyrirtækjaskuldabréf, þar sem það er takmörkuð tilhneiging til vaxtamunaviðskipta í þeim.“

Magnús segir First North markaðinn bjóða upp á mikil tækifæri fyrir skráningu fyrirtækja á skuldabréfamarkað. „Ég held að það séu stór tækifæri fyrir fyrirtæki til að koma inn á markað með minni kostnaði með skráningu á First North markaðinn. Ég held að það sé gríðarlega vannýttur kostur og kannski er einfaldlega ónæg meðvitund til staðar um þann kost.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .