Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi alþingismaður og bankaráðsmaður í Seðlabanka Íslands vildi ekki staðfesta ársreikning Seðlabankans nema með þeim fyrirvara að hann teldi ekki rétt að færa seðla og mynt til skuldar í ársreikningi.

Í grein á vefsíðu sinni fjallar Frosti um afstöðu sína um hvernig skuli færa útgáfu seðla og mynta til bókar en hann telur rétt að færa útgáfu peningaseðla til tekna. Hann segir að líta eigi á útgáfu seðla og mynta sem sölu á vöru sem bankinn framleiðir. Framleiðslukostnaður 10.000 króna seðils sé um 20 krónur.

„Þegar banki kaupir seðla af Seðlabankanum greiðir bankinn kaupverðið af innstæðu sinni í Seðlabankanum.  Þegar Seðlabankinn selur banka nýjan 10.000 kr. seðil mætti ætla að bókunin væri þannig að inneign bankans hjá Seðlabanka lækki um 10.000 kr., tekjur Seðlabankans aukist um 10.000 kr., vörunotkun aukist um 20 kr. og hagnaður aukist um 9.980 kr. Semsagt mjög ábatasamt að búa til peninga og ætti ekki að koma neinum á óvart.

En í stað þess að sýna auknar tekjur sýnir bókhaldið að skuldir Seðlabankans hafi aukist um 10.000 kr., vörunotkun um 20 kr. Af bókhaldi bankans að dæma virðist peningaframleiðsla vera taprekstur. Þetta virðist stangast á við heilbrigða skynsemi og einnig góða reikningskilavenju,“ skrifar hann í greininni.

Seðlabankinn hefði getað greitt meiri arð

Þá segir hann að áhrif þessa sé vanmat á tekjum og hagnaði bankans og ofmat á skuldum hans. Með þessari reikningsskilaaðferð gefi ársreikningur því ekki rétta mynd af raunverulegri stöðu bankans.

„Ef Seðlabankinn hefði fært þessa miklu aukningu seðlamagns til tekna, en ekki skuldar, þá hefði hagnaður bankans mælst ríflega 50 milljörðum meiri en ella og bankinn líklega getað greitt meiri arð til ríkisins. Það skiptir því verulegu máli fyrir ríkissjóð hvernig seðlar eru færðir til bókar hjá Seðlabankanum,“ segir hann.

Söguleg mistök

Frosti telur að sagan vegi þungt í því hvernig seðlar og myntir eru færðar til bókar. Upphaflega hafi seðlar og myntir verið innleysanlegar í gulli og því hafi réttilega átt færa það sem skuld. Eftir að gullfóturinn var afnumin hafi eðli peninga hins vegar breyst að þessu leyti en reikningsskilaaðferðin ekki.

Í greininni tekur hann dæmi af hugbúnaðarfyrirtækjum. „Kannski stafar ruglingurinn af því að það má skila slitnum seðlum og fá nýja í staðinn. Flest fyrirtæki selja vörur sem hægt er að skila ef galli kemur upp en þau færa þó ekki seldar vörur sem skuld enda er ekki reiknað með að öllum vörum verði skilað. Kannski má segja að sum hugbúnaðarfyrirtæki sem selja hugbúnað með uppfærslurétti skipti út öllum seldum vörum fyrir nýjar ef galli kemur upp. Þau færa samt seldan hugbúnað til tekna en ekki skuldar. Líkt og með hugbúnað er framleiðslukostnaður peningaseðils aðeins lítið brot af söluverði. Þegar Seðlabanki afhendir nýjan 10.000 kr. seðil í stað gamals er framleiðslukostnaðurinn aðeins 20 kr. Það er því engin ástæða til að færa allt nafnvirðið sem skuld vegna ábyrgðar bankans á notagildi seðilsins“ skrifar Frosti.

Hann bendir jafnframt á skýrslu IPSASB (International Public Sector Accounting Standards Board) en þar er farið yfir að nota megi báðar aðferðir við bókfærslu útgefinni seðla og mynta, annars vegar skuldfærslu en hins vegar tekjufærslu.