Chris Ronnie, fyrrverandi forstjóri JJB Sports, var í gær fundinn sekur um fjársvik. Hann var sakfelldur um að þiggja leynilegar greiðslur sem stjórn fyrirtækisins hafði ekki veitt samþykki fyrir.

Í frétt the Guardian um málið segir að upphæðin sem um ræði sé rúmlega ein milljón punda, sem jafngildir um 194 milljónum íslenskra króna. Hluta upphæðarinnar notaði Ronnie til að kaupa hús á Flórída. Ronnie var bæði sakfelldur fyrir fjársvikin, en einnig fyrir að veita rangar upplýsingar á meðan rannsókn stóð.

JJB Sports var áður stærsta íþróttavörubúð Bretlands en varð gjaldþrota árið 2012. Íþróttarisinn Sports Direct keypti hluta af verslunum JJB Sports eftir gjaldþrot.

Brotin áttu sér stað á árunum 2007 og 2008. Tveir menn voru auk Ronnie sakfelldir í málinu. Ronnie gæti átt yfir höfði sér fimm ára fangelsisdóm en dómur verður kveðinn upp þann 12. desember.