*

laugardagur, 25. nóvember 2017
Innlent 25. júní 2012 14:34

Fyrrum Landsbanka­maður hlaut 18 mánaða dóm

Héraðsdómur hefur í þriðja sinn dæmt í máli Hauks Þór Haraldssonar. Mistök í réttarkerfinu, segir verjandi hans.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Haraldur Guðjónsson

„Þetta er algjört einsdæmi,“ segir Gestur Jónsson, verjandi Hauks Þórs Haraldssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Landsbankanum, sem í dag var dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir fjárdrátt í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þetta er þriðja skiptið sem dæmt er í málinu. Hauki er gefið að sök að hafa millifært tæpar 120 milljónir króna af gjaldeyrisreikningi Landsbankans 8. október árið 2008 sem geymdi fjármuni erlendra viðskiptavina bankans yfir á eigin reikning. Haukur hefur haldið því fram að hann hafi haft áhyggjur af því að innstæður erlendra aðila myndu ekki njóta sömu verndar og innstæður á reikningum innlendra aðila. Í kjölfarið millifærði hann féð til að koma í veg fyrir að fjármunirnir myndu tapast. Ekki liggur fyrir hvar fjármunirnir liggja í dag en Haukur millifærði síðar féð yfir til Landsbankans.  

Dómnum verður áfrýjað til Hæstaréttar. 

Í niðurlagsorðum dómsins yfir Hauki nú segir að ákærða verði á engan hátt kennt um það að málið hafi komið þrisvar sinnum fyrir dóminn í héraði. 

Hæstiréttur sendi málið aftur heim í hérað í fyrsta sinn í febrúar í fyrra með þeim orðum að sá héraðsdómari sem dæmdi málið í fyrsta sinn hafi ekki tekið nægilegt tillit til ákveðinna gagna. Annar dómari dæmdi í málinu á ný og fór það aftur til Hæstaréttar. Þar var sagt að þegar mál hafi verið sent heim í hérað aftur þá eigi að vera þrír dómarar í málinu. Þrír nýir dómarar dæmdu nú í máli Hauks. 

Gestur segir ljóst að mistök hafi átt sér stað í réttarkerfinu í máli Hauks.

Haukur var sýknaður í héraðsdómi þegar dæmt var í málinu í fyrsta sinn í apríl árið 2010. Gestur bendir á að ef hann hefði verið sakfelldur í það skiptið með sama hætti og hann var sakfelldur nú hefði Haukur klárað dóminn fyrir einu og hálfu ári síðan. Í stað þessa hefur málið farið fram og aftur á milli héraðsdóms og Hæstaréttar. Þess ber að geta að Haukur var dæmdur í tveggja ára fangelsi í annað skiptið sem héraðdómur dæmdi í málinu.