Stefán Þór Helgason gekk nýlega til liðs við KPMG sem ráðgjafi. Hann hefur síðustu ár starfað hjá Klak Innovit nýsköpunar- og frumkvöðlasetri þar sem hann hefur aðstoðað sprotafyrirtæki að taka fyrstu skrefin.

„Ég hafði verið í samstarfi við KPMG meðan ég var að vinna hjá Klak Innovit og þeir höfðu verið duglegir að styðja við starfið. Síðan vissu þeir að ég hafði verið lengi í bransanum og þeir vildu athuga hvort ég hefði áhuga á að breyta til. Eftir að ég var bú- inn að hugsa mig aðeins um þá ákvað ég að slá til. Frumkvæðið lá eiginlega hjá KPMG út af því að samstarfið hafði gengið mjög vel. Þeir voru svona að reyna að bæta við sig á þessu sviði og fá aukaliðsauka. Þetta gekk bara svona vel saman.“

Parkett og flísar

Stefán segist eyða mest öllum frítíma sínum þessa dagana í að skoða parkett og flísar en hann og frúin eru nýbúin að festa kaup á fyrstu íbúðinni en það styttist óðfluga í að þau fái hana afhenta. „Hvert sem maður fer þá er maður farinn að skoða hvernig innréttingarnar eru og hvernig parkettið er lagt. Það er víst eitthvað sem skiptir víst máli og eitthvað sem ég hef aldrei pælt í áður.

Í gegnum tíðina hef ég verið mikið í íþróttum, ég er fæddur og uppalinn á Egilsstöðum og æfði þar allar íþróttir, m.a. sund, körfubolta, fótbolta og skíði. Ég var líka einu sinni Austurlandsmeistari í kúluvarpi þegar ég var 12 ára gamall þannig að maður afrekaði nú svolítið á þeim tíma. Ég sakna þess svolítið að komast meira á skíði, það er náttúrulega alltaf miklu meiri snjór fyrir austan. Ég hef því verið svolítið að flakka á milli íþrótta og hef prófað ýmislegt skemmtilegt.“

Viðtalið við Stefán Þór má lesa í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .