Í fyrsta sinn í meira en áratug hyggst Coca Cola kynna nýja bragðtegund, en um er að ræða appelsínu-vanillu kók, eða Coke eins og það heitir upp á enskuna. Verður nýja bragðtegundin til í bæði hefðbundinni sykraðri útgáfu, sem og Zero Sugar útgáfu, frá og með 25. febrúar næstkomandi í Bandaríkjunum.

Auk þess að koma út í dósum og flöskum verður hægt að prófa hana úr vél á veitingastöðum Wendy´s meðan á March Madness körfuboltamótinu stendur, en eftir það fá fleiri staðir að vera með drykkinn, að því er segir í staðarfjölmiðli í Atlanta .

Fyrirtækið, sem er með höfuðstöðvar sínar í Atlanta í Bandaríkjunum, prófaði fyrst þrjár aðrar tegundir en neytendur sem höfðu verið valdir af handahófi vildu helst appelsínið þeirra. Hinar bragðtegundirnar sem ekki nutu hljómgrunn voru með hindberjabragði, sítrónu og engiferbragði.

Vörumerkjastjóri Coca Cola, Kate Carpenter segir fyrirtækið ætla með þessu að „endurvekja hamingjusamar minningar af áhyggjulausum sumardögum“. Vanillukókið var kynnt til sögunnar árið 2007, en kirsuberjakókið frá árinu 1985, þó hvorugar séu reglulega til sölu hér á landi. Svo það er spurning hvenær og hvort appelsínu-vanillukókið komi í sölu í íslenskum verslunum.