HS Veitur hafa boðið út kaup og uppsetningu varmadælu fyrir hitaveituna í Vestmannaeyjum. Er framkvæmdin upp á milljarð króna og yrði þetta í fyrsta sinn sem varmadæla er keypt til að þjóna heilu byggðarlagi hér á landi. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu .

Þar kemur fram að Hitaveitan noti mest ódýrt ótryggt rafmagn til að hita vatnið og segir Ívar Atlason, tæknifræðingur hjá HS Veitum, að óvissa ríki um ótryggða orku vegna ástandsins í raforkuframleiðslunni. Bendir hann á að skrúfað hafi verið fyrir rafmagn til hitaveitunnar á síðasta ári.

Varmagjafi varmadælunnar verður 6 til 12 gráðu heitur sjór sem borað verður eftir. Fram kemur að sjórinn við Vestmannaeyjar sé iltölulega hlýr vegna áhrifa Golfstraumsins sem flytji hlýjan sjó frá miðbaug norður í höf. Með því að nýta hitann úr sjónum sé hægt að minnka raforkukaup um tvo þriðju.