Í vetur opnuðu þau Arndís Reynisdóttir, Ýmir Einarsson og Sonja Magnúsdóttir kaffihúsið Vínyl við Hverfisgötu 76. Staðurinn er allt í senn kaffihús, veitingastaður, bar og plötubúð. Það sem hins vegar aðgreinir Vínyl frá öðrum veitingastöðum er að hér er um að ræða fyrsta og eina algerlega Vegan veitingahúsið á Íslandi. Í því felst að allir réttir staðarins eru án dýraafurða. Sonja segir að hana hafi lengi langað að opna kaffihús og eftir að hún fékk vinafólk sitt, þau Aldísi og Ými, með sér í lið ákvað hún að slá til. Sonja bjó sjálf lengi erlendis og starfaði m.a. sem grænmetiskokkur í tvö ár samhliða myndlistarnámi í Amsterdam.

„Upprunalega stóð til að opna grænmetisstað. Mér fannst hreinleikinn sem fylgir slíku eldhúsi meira heillandi en sóðaskapurinn sem oft fylgir fisk og kjöti. Svo fengum við hins vegar til liðs við okkur vegan kokk, hana Linneau Hellström, sem sannfærði okkur um að taka þetta alla leið.“ Aðspurð segir Sonja að þau hafi í fyrstu verið með nokkrar efasemdir um að taka staðinn í þessa átt. „Í upphafi vorum við til dæmis að selja osta en hugmyndin var fólk gæti fengið sér þess háttar snarl með víninu. Við ákváðum þó síðan að taka hugmyndafræðina alla leið og erum núna alveg vegan fyrir utan að fólk getur fengið mjólk í kaffið sitt ef það vill.“

Unga kynslóðin upplýstari

Sonja segir viðbrögðin við staðnum hafa verið vonum framar. „Fólk hefur verið mjög spennt fyrir þessu og við höfum verið með fastakúnna frá fyrsta degi. Fólk féll fyrir staðnum og stemningunni, en fólk getur rótað í vínylplötunum okkar á meðan það bíður eftir matnum og jafnvel fengið að setja plötu á fóninn. Flestir viðskiptavinir okkar eru íslendingar en þó er að sjálfsögðu töluvert af ferðamönnum inn á milli. Hugmyndin var alls ekki að herja á ferðamennina heldur langaði okkur helst að opna þægilegan stað fyrir heimamenn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.