Fyrsta vika ársins 2011 hefur hingað til verið góð fyrir margar helstu hlutabréfavísitölur heims. Í vikunni hefur S&P500 hækkað um 1,9%, DAX um 3,4% og FTSE100 um 0,9% sé miðað við lokagengi gærdagsins. Í vikunni hefur íslenska OMXI6 vísitalan hækkað um 2,5%. Í Morgunpósti IFS Greiningar segir að hækkunina í Bandaríkjunum megi líklega að hluta til rekja til þess að stofnanafjárfestar eins og lífeyrissjóðir geti ekki mætt markmiðum sínum með því að fjárfesta of stórum hluta eigna sinna í bandarískum ríkisskuldabréfum enda ávöxtunarkrafa þeirra afar lág um þessar mundir. Sem dæmi sé ávöxtunarkrafa 5 ára ríkisskuldabréfa 0,88%, óverðtryggt. Stofnanafjárfestar þurfi því að leita í hlutabréf og aðrar áhættusamari eignir.