Heimasíða Síldarvinnslunnar skýrir frá þv í að Vilhelm Þorsteinsson EA hafi komið til Neskaupstaðar í gær með fyrsta makrílinn sem þangað berst á vertíðinni. Afli skipsins var 700 tonn upp úr sjó og þar af 500 tonn af frystum makríl.

Þá segir Síldarvinnslan einnig að söluhorfur á makríl séu ágætar , og vitnar þar í Gústaf Baldvinsson framkvæmdastjóra Ice Fresh Seafood. Hins vegar segist Gústaf hafa nokkrar áhyggjur af síldinni:

„Söluhorfur á makríl eru ágætar og þar finnum við fyrir mikilli eftirspurn frá mörgum mörkuðum. Hins vegar er því ekki að neita að við höfum nokkrar áhyggjur af síldinni. Eftirspurn dróst saman á síldarmörkuðum á síðustu vertíð og verð lækkuðu mikið. Því miður sér ekki fyrir endann á þessari niðursveiflu hvað síldina varðar. Inn í þetta spilar hið svonefnda Rússabann sem er grafalvarlegt. Rússabannið hefur áhrif á nánast alla okkar sölustarfsemi því Rússland var okkar helsti markaður fyrir uppsjávarafurðir,“ segir Gústaf í stuttu viðtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Heimasíðan ræddi einnig við Guðmund Jónsson skipstjóra á Vilhelm Þorsteinssyni, en Vilhelm var einnig fyrsta skipið sem landaði makríl á Neskaupstað á síðasta ári. Það var 11. júlí eða átta dögum fyrr en í ár.

„Mér líst vel á vertíðina, ég trúi því að þetta verði fínasta vertíð,“ segir Guðmundur. „Annars er makríllinn heldur seinna á ferðinni en undanfarin ár enda er sjórinn við landið heldur kaldari en hann hefur verið um þetta leyti árs. Við byrjuðum túrinn á því að fara í Smuguna en þar var heldur lítið að hafa. Við fengum þar þrjú hundruð tonn. Síðan var farið á miðin austan við Vestmannaeyjar, í Háfadýpið, og þar fengum við meirihluta aflans. Veiðin var þar heldur róleg en hún glæddist, allavega hjá einhverjum skipum, eftir að við héldum í land. Makríllinn sem fæst þarna er stór og fallegur. Þetta er 430 gramma fiskur og 19-20% feitur. Það er svolítil áta í honum. Ég reikna með að þetta verði allt heldur seinna á ferðinni nú en síðustu ár en í fyrra var makrílvertíðinni lokið í lok september og þá vorum við búnir að vera í Smugunni um mánaðartíma. Við fórum í Smuguna 29. ágúst því þá var veiðin búin hér við landið.“

Nánar má lesa um makrílinn og horfurnar á heimasíðu Síldarvinnslunnar, hér og hér .