Á fyrsta ársfjórðungi ársins var fjórðungur allra kaupsamninga á íbúðarhúsnæði vegna fyrstu kaupa á landinu öllu á höfuðborgarsvæðinu, en þetta hlutfall fór lægst í 6,1% á höfuðborgarsvæðinu árið 2009 og í 7,5% á landinu öllu sama ár.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem Reykjavík Economics gerði fyrir Íslandsbanka sem ber yfirskriftina Blikur á lofti á íbúðamarkaði: Framboðstregða á höfuðborgarsvæðinu ýtir undir bólumyndun, en skýrslan fær áðurnefndar tölur úr Þjóðskrá. Segir skýrslan fyrstu kaupendur vera þann hóp sem drífi áfram íbúðamarkaðinn, og vísar hún í að aldamótakynslóðin sem þar fer fremst í flokki sé gríðarlega stór hér á landi.

Eftirspurn um þriðjungur af framboði

Þeir sem eru á aldursbilinu 20 til 29 ára séu tæplega 51 þúsund manns, eða um 15% landsmanna, og reiknar skýrslan að íbúðaþörf þessa hóps verði rúmlega 10 til 12 þúsund íbúðir á næstu árum. Á sama tíma eru líkur á að um 4.000 íbúðir komi inn á markaðinn á næstu tveimur árum, samkvæmt úttekt Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, sem skýrslan vísar í.

Skýrslan listar einnig upp ástæður mikillar aukningar á fyrstu kaupum, og nefnir meðal annars betra atvinnuástand meðal ungs fólks og hærri kaupmátt en einnig sértækar reglur eins og afslátt af stimpil- og lántökugjöldum vegna fyrstu kaupa, allt að 90% lánshlutfall vegna kaupa á fyrstu íbúð innan ákveðinna fjárhæðarmarka og séreignarsparnaðarúrræðin sem stjórnvöld bjóða nú upp á.

En samt sem áður eru fyrstu kaupendur eldri í dag en fyrir alþjóðlegu fjármálakreppuna en einnig spilar inn í skortur á hagkvæmu húsnæði. Býr nú fleira ungt fólk í foreldrahúsum en áður, en samkvæmt félagsvísum Hagstofu Íslands búa nú 56,9% fólks á aldrinum 20 til 24 ára í foreldrahúsum meðan sama hlutfall var 48,1% árið 2005. Hlutfallið í aldurshópnum 25-29 ára hækkaði á milli 2009 og 2015 úr 15,5% í 21,4%.