Í nokkrum bæjum í New Hampshire í Bandaríkjunum er þegar búið að kjósa og telja atkvæðin í forsetakosningunum sem fram fara þar í landi í dag.

Kjörstaðir opnir mislengi

Kjörstaðir í landinu opna alla jafna í dag milli 6 og 7 að morgni og eru opnir fram eftir degi, en fyrstu fylkin til að loka eru Indiana og Kentucky, sem loka klukkan 18:00 að staðartíma sem er klukkan 11:00 í kvöld.

Hið mikilvæga ríki Flórída lokar klukkutíma seinna og síðan loka 20 ríki klukkutíma eftir það, þar á meðal eru Illinois og Michigan þar sem mjótt er á mununum en úrslitin þar skipta sköpum um niðurstöður kosninganna eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um .

Síðustu kjörstaðir loka klukkan 9 í fyrramálið

Síðustu kjörstöðum lokar í austurhluta landsins, Kalifornía lokar klukkan 8 að kvöldi sem er klukkan 4 í nótt, en síðustu sem loka er Alaska á miðnætti á staðartíma, sem er klukkan 9 að morgni í fyrramálið.

Í New Hampshire eins og áður segir gilda þær sérstöku reglur að bæir með færri en 100 íbúa mega opna jafnskjótt og kosningadagur rennur upp og ef allir íbúar hafa kosið má loka kjörstöðum, telja og birta niðurstöðurnar.

Úrslitin komin í þremur bæjum

Þrír bæir hafa þegar gert það, og er hefð fyrir því að Dixville Notch, nálægt kanadísku landamærunum sé fyrst, en þar eru átta kjósendur.

Skiptust atkvæðin í bænum þannig að Hillary fékk fjögur, Trump fékk tvö, Gary Johnson sem sækist eftir embættinu fyrir Frjálshyggjuflokkinn fékk eitt atkvæði og síðan fékk Mitt Romney, fyrrverandi forsetaframbjóðandi Repúblikana eitt atkvæði. Var það skrifað inn sem kosningalög í landinu heimila.

Tveir aðrir bæir í fylkinu opnuðu einnig stuttu eftir miðnætti og lokuðu kjörstöðum um leið og allir á kjörskrá höfðu kosið og síðan var talið. Í Hart´s Location sigraði Hillary en í Millsfield vann Trump með 16 atkvæðum gegn 4 atkvæðum Hillary.