Fyrstu þrílitna laxaseiðunum verður sleppt í sjóeldiskví hjá Fiskeldi Austfjarða um miðjan næsta mánuð. Þetta eru umtalsverð tímamót og Agnar Steinarsson líffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun segir í þessu felist jafnframt viss leið til þess að sætta gagnstæð sjónarmið um laxeldi í sjó.

Samstarf um rannsóknir á ófrjóum laxi er milli Hafrannsóknastofnunar, Stofnfisks, Hólaskóla, Stjörnu-Odda og Fiskeldis Austfjarða. Verkefnið er styrkt um 11 milljónir króna á þessu ári og er um framhaldsstyrk að ræða. Verkefnið er einnig styrkt af Umhverfissjóði sjókvíaeldis. Verkefnisstjóri er Agnar Steinarsson.

„Stærsti verkþátturinn er í höndum Fiskeldis Austfjarða. Þar eru alin þrílitna seiði í seiðastöðinni Rifósi í Keldnahverfi. Þau seiði verða sett í kví á Fáskrúðsfirði um miðjan júní. Þetta verður í fyrsta sinn sem ófrjór þrílitna lax fer í sjókví á Íslandi,“ segir Agnar.

Seiðin verða flutt landleiðina frá Rifósi til Húsavíkur þar sem þau fara með skipi til Fáskrúðsfjarðar. Alls verða um 80 þúsund seiði sett í eina kví. Agnar segir seiðaeldið hafa gengið vonum framar. Þrílitna fiskur vex almennt hraðar á seiðastigi en hefðbundinn fiskur en reynsla erlendis segir að saman dragi í vextinum á seinni stigum. Reiknað er með því að þessi útsetning gefi af sér ríflega 300 tonnum af matfiski. Ráðgert er að fyrsta slátrun fari fram seinnipart næsta sumars og nái fram á veturinn 2020.

Sátt milli ólíkra hagsmuna

Hafrannsóknastofnun, Háskólinn á Hólum og Stjörnu-Oddi sinna hliðarverkefnum sem tengjast þrílitna laxinum eins og rannsóknum á kjörhitastigi, áhrifum súrefnismettunar, áhrifum kolsýru og tíðni vansköpunar. Útsetning á 80.000 seiðum telst vera á iðnaðarskala og þess vegna ekki síst telst þetta til markverðra tímamóta. „Það eru líka tímamót að fyrirtæki í greininni taki þátt í tilrauninni og hafi trú á þessari aðferð. Þetta er auðvitað ekki stór hluti af þeirra eldi ennþá en engu að síður talsverður kostnaður sem fylgir þessu. Þetta er mjög jákvætt og sýnir auðvitað líka vilja til sátta milli ólíkra hagsmuna. Það væri svo ekki verra ef þrílitna fiskur reyndist svo á endanum koma betur út í eldi,“ segir Agnar.

Stofnfiskur hefur útvegað hrogn í verkefnið og fyrirtækið framkallar þrílitnun með þrýstimeðferð hrogna að nýlokinni frjóvgun. „Þessi aðferð hefur ákveðin líffræðileg áhrif á fiskinn sem geta háð honum við viss jaðarskilyrði en við rétt skilyrði dafnar hann jafnvel betur en annar fiskur. Þessi aðferð er algeng í öðru fiskeldi. Allur regnbogasilungur sem er alinn í sjókvíum á Íslandi er til að mynda þrílitna.

Einn verkþáttur til viðbótar hefur bæst við verkefnið sem lýtur að framleiðslu á kynlausum laxi og er hann í fullum gangi hjá Hafrannsóknastofnun á Stað í Grindavík. Þar er um að ræða samstarf við Stofnfisk og Marylandháskóla í Baltimore í Bandaríkjunum varðandi þróun á nýrri geldingaraðferð sem kallast „genaþöggun“. Aðferðin felst í ákveðinni efnameðferð á hrognunum áður en þau eru frjóvguð sem leiðir til þess að ekki myndast kynfrumur. Þessi aðferð er ennþá á tilraunastigi í laxi en með rannsóknunum er stefnt að því að hún geti orðið raunhæfur valkostur í laxeldi innan fárra ára.“