ÍPrimeFish-verkefni Evrópusambandins snýst um að styrkja samkeppnisæfni sjávarafurða. Íslendingar stýra verkefninu en PrimeFish er þriðja Evrópuverkefnið af þeim sem Matís stýrir sem fjallað er um hér í Fiskifréttum.

Þann 18. mars birtist hér í blaðinu viðtal við þau Önnu Kristínu Daníelsdóttur og Jónas Rúnar Viðarsson, þar sem þau skýrðu frá MareFrame-verkefninu. Það verkefni snerist um að þróa nýja nálgun við stjórn fiskveiða þar sem fiskistofnar eru skoðaðir í samhengi við vistkerfið í heild ásamt félagslegum og efnahagslegum þáttum að auki. Fjögurra ára vinnu við það verkefni er nýlokið og afraksturinn má skoða á vefsíðu verkefnisins, mareframe-fp7.org.

Í síðustu viku var síðan rætt við Jónas Viðarsson frá Matís og Mary Frances Davidson frá Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna um FarFish-verkefnið, sem snýst um að afla frekari þekkingar á fjarlægum veiðislóðum sem Evrópuflotinn nýtir, einkum á suðurhveli jarðar, og leggja jafnframt grunn að bættri stjórn þeirra veiða. Þetta verkefni er nýfarið af stað og er til fjögurra ára eins og MareFrame. Fylgjast má með framvindu þess á vefsíðunni www.farfish.eu.

Nú er röðin komin að PrimeFish, sem snýst um að styrkja samkeppnisstöðu fiskveiða og fiskeldis í Evrópu. Þeir Guðmundur Stefánsson og Valur Gunnlaugsson, báðir starfsmenn hjá Matís, hafa stýrt þessu Evrópuverkefni í rúm þrjú ár. Rétt eins og hin verkefnin tvö er PrimeFish til fjögurra ára, þannig að brátt fer að sjá fyrir endann á því.

„Við erum eiginlega komnir á þann stað núna að við getum farið að kynna niðurstöður ,“ segir Guðmundur. „Við viljum fá viðbrögð frá fiskiðnaðinum, og höfum þá bæði verið að horfa til sjávarútvegs en einnig til fiskeldis.“

Finnst samkeppnin ósanngjörn
„Grunnurinn á bak við þetta verkefni er sá að Evrópusambandið er verðmætasti og stærsti markaður fyrir fiskafurðir í heiminum, en staðan er orðin þannig að um það bil 65 prósent af öllum þeim sjávarafurðum sem neytendur innan ESB neyta er innfluttur. Þetta þýðir það líka að þeir sem eru á þessum markaði eru að keppa oft við mjög ódýrar vörur, og stundum finnst þeim þessi samkeppni ósanngjörn.“

Guðmundur segir þessa afstöðu vel skiljanlega, Íslendingar ættu að eiga auðvelt með að setja sig þarna í spor Evrópusambandsmanna.

„Það þarf ekki að nefna annað en að Íslendingar eru ekkert alltaf ánægðir þegar við sjáum pangasius stundum á svipuðu verði og þorskinn okkar. Okkur finnst það mjög skrýtið.“

PrimeFish-verkefnið snýst í grunninn um að Evrópusambandið vill skoða af hverju samkeppnisstaða þeirra varðandi fisk og aðrar sjávarafurðir er ekki betri en raun ber vitni.

Evrópureglurnar strangar
„Meginvandamálið varðandi veidda fiskinn má segja að snúist um það hvernig menn koma fisknum inn á markað,“ segir Guðmundur og nefnir að bæði árstíðasveiflur í fiskveiðum og ofveiði sums staðar valdi þar ákveðnum erfiðleikum. Íslendingar hafi náð góðum tökum á þessu en Evrópusambandið síður.

„Ef við horfum sérstaklega til eldisins þá eru vandamálin þar frekar varðandi reglugerðir.“

Guðmundur segir erfitt að fá leyfi til að stunda fiskeldi innan Evrópusambandsins. Sums staðar eru fyrirtæki líka að keppa um vatnið við aðra.

„Reglurnar eru mjög strangar í Evrópu sem hefur eiginlega gert það að verkum að ekki hefur orðið nein aukning í fiskeldi innan ESB á undanförnum árum.“

Erfiður markaður
„Allar þessar vörur sem framleiddar eru innan Evrópu eru mjög öruggar og í góðum gæðaflokkum. En svo er oft verið að flytja inn vörur frá Asíu þar sem ekki er víst að verið sé að gera sömu öryggis-og gæðakröfur og alveg ljóst að vörur frá ESB standast ekki slíka verðsamkeppni. Þetta ásamt erfiðu reglugerðarverki hefur gert það að verkum að evrópska fiskeldið hefur meira eða minna staðið í stað frá árinu 2000.“

Eitt vandamálið er síðan það að stór hluti nýjunga sem menn reyna að koma með inn á evrópska markaðinn hafa ekki náð þar neinni fótfestu og dottið út innan fárra ára.

„Opinberar tölur sýna að 70 prósent af þeim nýjum vörum sem settar eru inn á markaðinn eru dottnar út eftir eitt, tvö eða þrjú ár,“ segir Guðmundur. PrimeFish-verkefnið gengur út á að greina þessi vandamál og skoða hvernig samkeppnisstaðan er.

„Það sem við erum að gera er að reyna að átta okkur á heildarmyndinni á evrópskum mörkuðum og skoða hvernig hægt er að hafa áhrif á samkeppnisstöðuna og bæta hana.“

Fimm markaðssvæði
Auk Matís taka fimmtán fyrirtæki og stofnanir þátt í verkefninu, þar af fjórtán frá Evrópu, eitt frá Kanada og eitt frá Víetnam.

Þegar vinnan við PrimeFish-verkefnið hófst var byrjað á því að setja upp vinnuskipulag, þar sem starfinu var skipt upp í nokkra vinnupakka eins og venja er til í Evrópuverkefnum af þessu tagi.

Verkefnið var takmarkað við nokkrar fisktegundir og helstu markaðssvæðin í ESB. Ákveðið var að skoða sérstaklega markaðinn í Englandi, Þýskalandi, Frakklandi, Spáni og Ítalíu og einbeita sér að þorski, síld, laxi, regnbogasilungi, bassa, barra og pangasius.

„Við horfum síðan í stórum dráttum á þetta út frá þremur þáttum,“ segir Guðmundur.

„Í fyrsta lagi hvernig ákveðnar einingar eða ákveðnir geirar eru að standa sig. Hvernig stendur til dæmis á því að fyrirtæki eins og Samherji og HB-Grandi eru svona öflug, ekki bara á Íslandi heldur í samanburði við heiminn? Sama er að segja um Norðmenn, af hverju eru þeir svona sterkir þegar kemur að laxinum?“

„Svo horfum við líka á alla virðiskeðjuna, alveg frá því þú slátrar fiskinum eða veiðir hann og hann fer í gegnum mismunandi skref í virðiskeðjunni alveg yfir í lokaskrefið þar sem fiskurinn er seldur í verslunum eða á veitingastöðum,“ segir Guðmundur.

„Í þriðja lagi horfum við á vörurnar sjálfar og neytendurna og spyrjum þá hvað þeir vilja þegar þeir horfa til fisksins. Einnig erum við að skoða hvernig þróunin hefur verið á mörkuðunum.“

Nýstárleg neytendakönnun
Þeir Guðmundur og Valur halda til Brussel í næstu viku á hina árlegu sjávarútvegssýningu sem þar er haldin, þá stærstu í heimi. Þar ætla þeir að kynna helstu niðurstöður verkefnisins síðustu þrjú árin, með sérstakri áherslu á viðamiklar neytendakannanir sem nýttar hafa verið við að þróa markaðsgreiningartæki sem á að geta aðstoðað fyrirtæki sem hyggjast setja vörur á markað í Evrópu.

„Við gerðum athuganir á mörkuðunum fimm og leituðum þá beint til neytenda. Við sýndum þeim myndir af vörunum, gáfum þeim nokkra kosti og spurðum hvað þeir væru þá tilbúnir til að borga fyrir vöruna.“

Alls voru spurningarnar lagðar fyrir 2.500 manns, þar af 500 á hverjum þeirra fimm markaða sem til skoðunar voru.

„Það sem kemur út úr þessari könnun almennt séð er að á öllum þessum mörkuðum er laxinn sá fiskur sem neytendur eru líklegastir til að velja, nema á Ítalíu þar sem þeir velja bassann og barrann. Svo er annað sem kom svo sem ekkert á óvart, að síldin er svolítið sérhæfð vara. Hún selst aðallega í Þýskalandi og á Bretlandi þar sem hún er þekkt. Frakkar þekkja hana auðvitað líka sem reykta, en reyktur lax hefur mikið til tekið yfir það hlutverk sem síldin hafði.“

Hvert þessara markaðssvæða var síðan greint sérstaklega og þeir taka Þýskaland sem dæmi.

„Fyrir þýska neytendur skiptir mestu máli að fiskurinn sé villtur, að það sé auðvelt að elda hann, allt nema laxinn reyndar því þar kann fólk svolítið að fara með hann. Einnig vilja neytendur að á honum séu einhvers konar umhverfisvottanir, næringarupplýsingar og upplýsingar um að varan hafi góð áhrif fyrir heilsuna. Fyrir þetta eru þýskir neytendur tilbúnir að borga.“

Aðstoð við ákvarðanatöku
„Þetta getum við síðan notað til að hjálpa mönnum við að ákveða hvaða verð eigi að bjóða inn á ákveðið markaðssvæði. Síðan reyndum við að brjóta þetta frekar upp og átta okkur á því hvort við getum raðað neytendum í ákveðna hópa,“ segir Guðmundur. Allt í allt tókst þátttakendum í verkefninu að greina ellefu ólíka neytendahópa fyrir þessa fimm markaði í heild.

„Þetta eru mikið til sömu hóparnir milli landa, þannig að ef þú ert með góða vöru sem er að ganga fyrir ákveðinn hóp í Þýskalandi þá eru góðar líkur á að hún myndi passa fyrir sambærilegan hóp í Frakklandi til dæmis, þótt auðvitað þyrfti þá að aðlaga vöruna og setja á hana franskar upplýsingar og fleira í þá áttina.“

Þegar horft er á hvern markað fyrir sig er hentugt fyrir fyrirtæki að hafa fimm til sjö hópa í huga, segja þeir Guðmundur og Valur.

„Með því að brjóta svona upp markaðina, og tengja þessar upplýsingar við vörurnar þannig að þær passi betur fyrir einhvern ákveðinn hóp, þá er verið að auka líkurnar á því að þegar varan kemur inn á markaðinn nái hún betur hylli neytenda innan ákveðins hóps sem stílað er inn á.“

Pangasíus veitir alvöru samkeppni
Víetnam er langstærsti framleiðandi og seljandi pangasíus í heiminum, með meira en 90 prósent af heimssölunni. Framleiðslan hefur meira en fimmtugfaldast á síðustu tíu árum og hafa Víetnamar lagt verulega vinnu í að fá ASC-vottun fyrir þessa vöru. Með víðtækri samvinnu fyrirtækja, stofnana og alþjóðasamtaka náðu Víetnamar þeim áfanga árið 2012 að 10 prósent alls útflutnings var kominn með ASC-vottun. Tveimur árum síðar var vottunin komin upp í 20 prósent og nú er stefnt að á næstu árum verði allur pangasius frá Víetnam orðinn sjálfbær.

Það er því varla tilviljun að ákveðið var að skoða pangasíus sérstaklega í PrimeFish-verkefninu.

„Við ákváðum að taka pangasíus með bæði af því við höfðum tengingar í Víetnam og svo vegna þess að við vitum að pangasíus er að keppa meira og minna við allar þessar tegundir sem við erum að skoða,“ segir Guðmunur.

„Við erum að reyna að átta okkur aðeins á því hvernig Víetnamar ná að vera svona öflugir í því sem þeir eru að gera. Ég held að það hafi verið mjög skynsamlegt að taka þá inn.“

Lélegir innviðir en hröð viðbrög
Hann segir engar afgerandi niðurstöður komnar varðandi það hvers vegna Víetnömum gengur svona vel með pangasíus, sem hefur undanfarin ár orðið æ fyrirferðarmeiri á evrópskum mörkuðum og þá í beinni samkeppni við ýmsar tegundir fiskafurða.

„Við vitum að mikið af innviðunum hjá þeim eru lélegir. Það er erfitt að fá stuðning við rannsóknir og þróun, launin eru lág. En á hinn bóginn eru þeir orðnir mjög fljótir að mæta þeim kröfum sem markaðurinn er að gera. Þeim hefur tekist ótrúlega vel að takast á við þessa flöskuhálsa.“

Hann segir það helst hafa háð þeim hingað til að neytendur hafa áhyggjur af því hvernig aðstæður eru þar í fiskeldinu, hvernig gæðin eru á vatninu og öðru slíku.

„Þessar kröfur eru orðnar þannig að ef þú ætlar að vera inni á evrópska markaðnum þarftu bara að mæta þeim kröfum sem þar eru gerðar.“

Valur bætir því við að gæðin á víetnömskum pangasíum hafi aukist mjög.

„Þeir eru orðnir mjög flottir í þessu öllu. Þetta er orðin alvöru samkeppni við íslenskar vörur.“