Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrum forsætisráðherra og fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, segir í viðtali við Eyjuna að hann gæti ekki ímyndað sér verri ríkisstjórn, en þriggja flokka stjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, til að halda utan um uppstokkun fjármálakerfisins og sölu gígantískra verðmæta sem ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks náði að færa til ríkisins frá kröfuhöfum.

Hann segir þó að það sé við hæfi að óska nýrri ríkisstjórn til hamingju og óskar henni jafnframt góðs gengis við að vinna þjóðinni til gagns. Sigmundur hefur þó talsverðar áhyggjur af því hvað í stefnir.

Sigmundur Davíð segir það sem valdi honum hvað mestar áhyggjur er hvað stjórnin sé sérlega óheppilega samsett. Hann segir hvað pólitískar áherslur varðar er búið að skapa einstaklega hættulega blöndu. Hann tekur fram að Viðreisn hafi verið stofnuð upp úr „Áfram-Icesave samtökunum og JÁ-ESB-hópnum,“ og sé haldið uppi af fólki sem er áhrifamikið í viðskiptum á Íslandi. Jafnframt tekur hann fram að Björt framtíð virðist vera á svipuðum slóðum í flestum málum málum og Viðreisn og segir betur farið á því ef flokkarnir hefðu opinberað trúlofunina fyrir kosningar.