Skattur á ferðaþjónustu mun hækka verði þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar um fjármálaáætlun fyrir árin 2018 til 2022 samþykkt. Í henni er gert ráð fyrir að virðisaukaskattur á ferðaþjónustu hækki úr 11% í 24%, sem er almennt þrep virðisaukaskatts, þann 1. júlí á næsta ári. Þann fyrsta janúar árið 2019 verður almenna þrepið síðan lækkað í 22,5%.

Í samantekt fjármálaráðuneytisins um skattabreytingarnar segir að ferðaþjónustan hafi lengi verið lítil atvinnugrein í hægum vexti og sem slík notið skattalegra ívilnana.

„Gífurlegur vöxtur á undanförnum árum hefur gert að verkum að árið 2016 var ferðaþjónustan orðin undirstöðuatvinnugrein, sem aflaði stærsta hluta gjaldeyristekna þjóðarinnar. Skattalegar ívilnanir eiga því ekki rétt á sér lengur," segir í samantektinni. „Afnám þessara ívilnana eykur kostnað erlendra ferðamanna við Íslandsferð aðeins um fáein prósent og er ekki líkleg til að hafa veruleg áhrif á fjölda þeirra. Afnám þessara ívilnana gerir kleift að lækka almenna VSK-þrepið öllum til hagsbóta."

Ný skýrsla

Þessar fyrirhuguðu breytingar á skattkerfinu hafa verið harðlega gagnrýndar af forsvarsmönnum ferðaþjónustunnar. Í gær höfðu til að mynda 55 erindi og umsagnir borist vegna fjármálaáætlunarinnar og meirihluti þeirra snýr að ferðaþjónustunni.

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) kynntu fyrir helgi skýrslu sem málið. Þau fengu danska ferðamálaráðgjafann Steen Möller til að meta áhrif fyrirhugaðrar hækkunar á samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar í alþjóðlegu samhengi.

Möller fjallar sérstaklega um sem hvataferða, funda- og ráðstefnumarkaðinn, sem á ensku kallast MICE-markaðurinn (e. Meetings, Incentives, Conferences and Events). Til einföldunar verður hér eftir talað um ráðstefnugesti og ráðstefnumarkaðinn.

Eyða 80% meira

Í skýrslunni er fullyrt að hver ráðstefnugestur eyði að jafnaði 80% meira fé en ferðamaður, sem kemur í frí til landsins. Þá fylgi þessum gestum einnig ýmiss annar ávinningur. Það séu oftast erlend fyrirtæki eða samtök sem haldi ráðstefnur hér og gestirnir séu því sérfræðingar á ýmsum sviðum, oft fólk í viðskiptum eða vísindamenn. Þetta auki þekkingarmiðlun og tengslamyndun, sem geti til dæmis leitt til fjárfestingatækifæra fyrir Íslendinga. Mögulegur óbeinn ávinningur sé því töluverður.

Möller telur að almennt megi gera ráð fyrir því að ráðstefnugestir séu 3,5 sinnum verðmætari en hefðbundnir ferðamenn. Vegna þessa ætti landi eins og Ísland ef til vill að reyna að auka veg þessarar tegundar ferðaþjónustu.

Í skýrslunni segir mikil samkeppni sé á hinum alþjóðlega ráðstefnumarkaði og að fyrirhuguð hækkun virðisaukaskatt muni hafa neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu Íslands og geti eyðilagt áralanga vinnu við markaðssetningu ráðstefnuferða. Hækkunin virðisaukaskatts þýði að kostnaður á hvern gest aukist um 15 þúsund krónur (128 evrur) miðað við sex daga dvöl.

Ef við setjum þetta í samhengi við Arctic Circle ráðstefnuna þá komu um tvö þúsund gestir á hana í október síðastliðnum. Ráðstefnan stóð í þrjá daga en miðað við að gestirnir hafi komið daginn fyrir og farið daginn eftir hana þá má gera ráð fyrir því að þeir hafi dvalið í fimm daga á landinu. Ef stuðst er við útreikninga Möller mun skattahækkunin þýða að gestirnir þurfa að borga samtals 25 milljónum króna meira þegar þeir koma næst.

Reynsla Dana

Í skýrslunni fjallar Möller um reynslu Dana af því að vera með háan virðisaukaskatt á ferðaþjónustu. Frá 1992 hefur virðisaukaskattur í Danmörku verið 25% og næstu 20 árin þar á eftir fækkaði gistinóttum erlendra ferðamanna stöðugt.
Í skýrslunni segir að það sé fyrst núna, 25 árum síðar, sem gistináttafjöldinn í Danmörku sé orðinn svipaður og hann var árið 1992. Það sem hafi bjargað dönskum gististöðum sé hvað Danir sjálfir séu miklir ferðamenn í eigin landi. Á Íslandi séu erlendir ferðamenn hins vegar 80% gesta á hótelum og gistihúsum.

Möller segir í skýrslunni að hár virðisaukaskattur í Danmörku hafi lamað getu ferðaþjónustunnar þar í landi til að laða til sín ráðstefnur og því hafi danska ríkisstjórnin brugðið á það ráð að bjóða endurgreiðslur og að núna sé boðið upp á 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts. Seint megi halda því fram að slíkt fyrirkomulag sé til þess að einfalda skattkerfið.

Niðurstöður skýrslunnar eru að meta þurfi vandlega langtímaáhrifin af þeim verðhækkunum, sem fylgja munu hækkun virðisaukaskattsins. Ef stjórnvöld muni halda stefnu sinni til streitu þurfi þau að fara í sértækar aðgerðir, eins og til dæmis að bjóða upp á endurgreiðslu virðisaukaskatts, til þess að ráðstefnumarkaðurinn haldi samkeppnishæfni sinni en einnig til þess að viðkvæm svæði á landsbyggðinni verði ekki fyrir miklum áföllum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .