Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), segir stöðugleika og fyrirsjáanleika forsendur þess að fyrirtæki vaxi og dafni. En hvernig metur hann rekstrarumhverfi þeirra í dag?

„Samkvæmt könnun meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins, sem SA láta Gallup gera ársfjórðungslega, telja stjórnendur í heild aðstæður vera góðar en að þær fari versnandi," segir Halldór Benjamín. „Á heildina litið virðist efnahagslífið fikra sig mjúklega af toppi hagsveiflunnar.

Framundan gæti verið ár hagræðingar hjá mörgum fyrirtækjum. Jákvæð merki felast í efnahagslegum stöðugleika, lágri verðbólgu, lækkandi vöxtum, tiltölulega stöðugu gengi krónunnar eftir mikið ris og hnig á síðasta ári og minnkandi skorti á starfsfólki. Neikvæð merki felast í sterku gengi krónunnar og miklum launakostnaðarhækkunum síðustu ár."

Horfur í efnahagsmálum

Spurður hverjar séu horfur í efnahagsmálum á næstu misserum svarar hann: „Hár launakostnaður og hátt gengi krónunnar þrýstir niður afkomu fyrirtækja, einkum fyrirtækja sem starfa í alþjóðlegri samkeppni, annað hvort útflutningi eða í samkeppni við innflutta vöru eða þjónustu. Búast má við að mörg fyrirtæki hagræði í rekstri sínum þannig að með minnkandi hagvexti má búast við því að þau þurfi að fækka starfsfólki. Kjaramál eru ávallt áhyggjuefni á Íslandi, sem sagan kennir að geti hvenær sem er ógnað stöðugu gengi krónunnar og stöðugu verðlagi."

Rekstrarumhverfi fyrirtækja

Eins og áður sagði telur Halldór Benjamín að stöðugleiki og fyrirsjáanleiki séu lykilatriði þegar kemur að rekstrarumhverfi fyrirtækja.

„Stjórnvöld vita þetta og leggja megináherslu á stöðugleika í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar," segir hann.  „Eins og málum háttar er varðstaða um stöðugleikann mikilvægasta verkefnið. Umbætur sem stjórnvöld geta beitt sér fyrir eru fyrst og fremst á sviði skatta og vinnumarkaðar. Endurskoða þarf skattalegt umhverfi einstakra atvinnugreina, s.s. bankaskatt og veiðigjald, með samkeppnishæfni að leiðarljósi.

Stjórnvöld verða að gæta þess að atvinnulífið kikni ekki undir reglubyrði og gera alvöru úr stefnu sem margir aðhyllast þ.e. að sé ein íþyngjandi kvöð lögð á atvinnulífið verði annarri kvöð létt af því. Stjórnvöld og almenningur verða ávallt að hafa í huga að samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja miðað við erlenda keppinauta er forsenda góðra lífskjara."

Brýnt að klára tryggingagjaldið

Töluvert hefur verið talað um lækkun tryggingagjalds en það er gjald sem atvinnurekendur greiða af heildarlaunum launamanna. Halldór Benjamín segir að lækkun tryggingagjalds um 1,5%, að gefnum ákveðnum forsendum, hafi verið handsalað milli SA og næstsíðustu ríkisstjórnar í tengslum við kjarasamning milli SA og ASÍ í janúar 2016 um hækkun framlags atvinnurekenda í lífeyrissjóði um 3,5%.

„Einungis þriðjungur lækkunarinnar kom til framkvæmdar og brýnt að málið verði klárað. Á það er reyndar minnst í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það sem eftir stendur af lækkuninni er að stjórnvöld skili til baka hækkun tryggingagjaldsins árið 2009 til að mæta miklu atvinnuleysi á þeim tíma."

Spurður hvort hann hafi áhyggjur af stöðu einhverra sérstakra atvinnugeira svarar Halldór Benjamín: „Þegar raungengi krónunnar er svo hátt sem raun ber vitni, og samkeppnisstaða fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni að sama skapi erfið, er ástæða til að hafa áhyggjur af afkomu þeirra og jafnframt viðbrögðum við þeim aðstæðum. Viðbrögðin felast líklegast í fækkun starfsfólks og flutningi starfa úr landi þar sem það er raunhæfur kostur. Þá valda erfiðar aðstæður því að nýsköpun verður minni og þar með verða ekki til nauðsynleg framtíðarstörf til að viðhalda samkeppnistöðu þjóðarinnar og vexti næstu árin og áratugina."

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér.