Þorsteinn Víglundsson, segir að þetta ár gæti orðið mjög erfitt á vinnumarkaði. Ekki hafi náðst samstaða á vinnumarkaði um þær umbætur sem nauðsynlegt er að ráðast í.

Þú hafðir ansi mikið að gera í þínu fyrra starfi þegar kom að kjaraviðræðum og það gæti ansi margt gerst á þessu ári í þeim efnum hvað varðar t.d. samninga á opinbera markaðnum. Sérðu fyrir þér mikinn hita á vinnumarkaði á þessu ári?

„Þetta ár gæti orðið mjög erfitt á vinnumarkaði. Grunnvandinn er sá að það hefur ekki náðst samstaða meðal meginsamtaka á vinnumarkaði um þær umbætur sem nauðsynlegt er að ráðast í eða hvernig við komumst í þær. Ég held að meðal allra stærstu samtaka vinnumarkaðarins sé víðtæk samstaða um nauðsyn úrbóta og sú skýrsla sem Steinar Holden skilaði hér á síðasta ári, um meginveikleika íslenska vinnumarkaðslíkansins og hvaða úrbætur væru mögulegar og raunhæfar, var mjög mikilvægt innlegg í umræðuna. Um hana held ég að sé nokkuð góð samstaða, hún gefur raunsanna mynd af vandanum og kemur með mjög skynsamlegar tillögur til úrbóta.

Ég veit að þessum vetri hefur verið mjög vel varið í umræður innan verkalýðshreyfingarinnar til að kynna dýpra inn í raðir hreyfingarinnar mikilvægi umbótanna og hvað í þeim þeim felst. Þannig hefur hreyfingin skapað víðtækari samstöðu og við erum svo sannarlega að þokast í rétta átt.

Vandinn er hins vegar fyrst og fremst sá að það er engin samstaða um launastefnu á vinnumarkaðnum. Það var lagt af stað með rammasamkomulag eftir gerðardóm BHM haustið 2015 þar sem vinnuveitendahliðin, ASÍ og BSRB gerði þetta samkomulag og til stóð að BHM og KÍ myndu svo bætast í hópinn þegar búið væri að leysa úr lífeyrismálum opinberra starfsmanna. Nú er búið að því, en þá eru komnar aðrar ástæður fyrir því að þessi samtök vilja ekki koma inn á þetta samkomulag og svosem fjölþættur vandi sem samtökin í heild eru að glíma við.

Það verður að ná saman um einhverja heildstæða launastefnu fyrir vinnumarkaðinn ef mögulegt á að vera að vinna úr þeim áskorunum sem fram undan eru á þessu og næsta ári. Það verður ekki öðruvísi túlkað en að þessari samræmdu launastefnu hafi með einum eða öðrum hætti verið hafnað, sérstaklega af þessum aðilum, að þeir hafi ekki treyst sér að semja inn á hana. Ég held að það sé nauðsynlegt á þessu ári að menn nái saman um hvernig við ætlum að komast inn í nýtt kjarasamningalíkan.

Það er alveg ljóst að við höfum ekki efni sem samfélag á annarri byltu eins og vinnumarkaðurinn tók hér 2014-2015, launakostnaður á síðasta ári hækkaði um í kringum 10 prósent og laun hafa hækkað um 30 prósent meira og minna yfir línuna frá árslokum 2013. Á sama tíma hefur gengi krónunnar styrkst um 25 prósent og þetta er orðið mjög íþyngjandi fyrir allar útflutningsgreinar landsins.

Við erum í raun algerlega að renna blint í sjóinn með hvaða afleiðingar þetta hefur fyrir ferðaþjónustu. Við erum að þróast á undraskömmum tíma úr því að vera tiltölulega ódýr áfangastaður í að verða einn sá dýrasti í Evrópu, og á sama tíma er það einmitt ferðaþjónustan sem ber uppi þennan lífskjarabata og gjaldeyristekjur þjóðarinnar á undanförnum árum. Aðrar eldri útflutningsgreinar, sjávarútvegurinn, iðnaður og sprotafyrirtæki, eru fyrir löngu síðan farnar að kvarta undan hágengi og ráða mjög illa við þessar aðstæður. Að eiga þá að takast á við enn meiri gengisstyrkingu og enn meiri launahækkanir en það sem gerist í nágrannalöndum okkar er algerlega óraunhæft og mun ekki fara vel fyrir okkur. Það er nauðsynlegt fyrir vinnumarkaðinn að ná utan um þetta.“

Nánar er rætt við Þorstein Víglundsson í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .