Efnahagslegt óöryggi fólks og hreppapólitík hefur ýtt undir stuðning við popúlisma í Evrópu, með þeim afleiðingum að dregið hefur úr stuðningi fólks við hefðbundna stjórnmálaflokka og stofnanir í álfunni, ásamt því að kynda undir efasemdir um framtíð Evrópusambandsins. Erfitt gæti reynst að endurheimta traust almennings í Evrópu, en til að gera það gæti Evrópusambandið þurft að breyta forgangsröðun sinni á ýmsum stefnumálum í samvinnu við ríkisstjórnir Evrópuríkja.

Þetta er niðurstaða nýlegrar rannsóknar, Europe's Trust Deficit: Causes and Remedies . Höfundar skýrslunnar eru hagfræðingarnir Gylfi Zoega, Christian Dustmann, Barry Eichengreen, Sebastian Otten, André Sapir og Guido Tabellini. Rannsóknin er fyrsta skýrslan í seríunni Monitoring International Integration. Skýrsluna má nálgast hér .

Markmið höfundanna var að greina ástæður þess trúnaðarbrests sem einkennir evrópsk stjórnmál í dag. Þeir skýra trúnaðarbrestinn með tilvísun í hentistefnu eða lýðhygli, stefnu sem skilgreind er út frá stjórnlyndi, þjóðernisstefnu og andstöðu við hefðbundin þjóðfélagsöfl. Þeir telja að efnahagslegt óöryggi fólks og hreppapólitík, eða stjórnmálabarátta sem tengist sjálfsmynd hópa, ýti undir stuðning við þessa stefnu.

Enn fremur leitast skýrsluhöfundar svara við spurningum á borð við: Er hætta á að Evrópusambandið leysist upp? Munu fleiri Evrópuríki fara eftir fordæmi Breta og segja skilið við Evrópusambandið? Eða hefur bylgja popúlisma og vantrausts í Evrópu hjaðnað?

Niðurstaða þeirra er það gæti reynst erfitt að endurheimta traust á evrópskum stjórnmálum og stofnunum. Bætt efnahagsástand sé engin töfralausn á trúnaðarbrestinum sem einkennir evrópsk stjórnmál, heldur verði Evrópusambandið ásamt ríkisstjórnum Evrópuríkja að tryggja alþjóðleg almannagæði í sessi og veita öryggi ásamt því að virða sjálfsímyndir Evrópuþjóða. Evrópusambandið gæti því þurft að breyta forgangsröðun ýmissa stefnumála til að byggja upp sterkari og samþættari Evrópu.