Síðastliðið haust var samþykkt var samþykkt ályktun á aðalfundi Landssambands smábátasjómanna þar sem óskað var eftir því að strandveiðibátum verði heimilt af vera með farþegaleyfi samhliða strandveiðileyfi.

„Með þessu myndu tækifæri innan strandveiðikerfisins aukast til muna og bátarnir fengju betri nýtingu við atvinnusköpun allt í kringum landið. Kerfið yrði um leið fýsilegra fyrir nýliða,“ segir í ályktuninni.

Í nýrri samantekt um strandveiðar frá Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri, sem unnin var fyrir Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, er þessi möguleiki nokkuð ræddur.

Þar er samt fullyrt að ef tengja ætti strandveiðar og ferðaþjónustu þyrfti að skapa gríðarlega flókið regluverk í kringum það. Þetta flókna regluverk myndi stangast verulega á við einfaldleika strandveiðanna, að mati skýrsluhöfunda.

„Ferðamenn heillast margir hverjir af sjarma strandveiðanna þegar þeir sjá lífið á litlum höfnum sem staðsettar eru nálægt ferðamannastraumnum,“ segir í skýrslu Háskólans á Akureyri. „Þó er ljóst að þótt ferðamenn séu reiðubúnir til að borga fyrir að fara einn túr með strandveiðibát er ekki sjálfgefið að það sé leyft. Strandveiðihafnir hafa misgott aðgengi að ferðamönnum og gæti slíkt líklega skapað aukatekjur fyrir sjómenn í slíkum höfnum. Undirbúa þyrfti reglur í kringum þetta því ef slys verða við slíka ferðamennsku gæti það haft afdrifaríkar afleiðingar í för með sér.“

Ekkert stórmál
Axel Helgason, formaður LS, furðar sig reyndar á því hve mikið er gert úr þessu atriði í skýrslunni.

„Þetta er ekkert stórmál fyrir okkur,“ segir hann. „Við vildum bara hafa þennan valmöguleika fyrir nokkra karla. Níutíu og fimm prósent þeirra myndu hvort sem er aldrei vilja gera þetta. Aðstæður eru bara þannig um borð að það býður ekkert upp á neina ferðamennsku. Það væri líka enginn ávinningur af því.“

Aðallega segir hann þetta hafa verið hugsað sem valmöguleika fyrir nokkra strandveiðimenn sem róa frá stöðum þar sem skortur er á afþreyingu fyrir ferðamenn, að þeir geti gripið í þetta þegar ekkert veiðist.

„Þeir geti þá farið í stutta róðra með einn eða tvo ferðamenn, ef öryggi um borð býður upp á það að þeir hafi farþegaleyfi, og farið þá í nokkrar svona ferðir á dag.“

Hann segist ekki sjá hvers vegna það ætti að vera svo flókið að bjóða upp á þennan möguleika.

Gamlar upplýsingar
Axel telur margt fleira athugavert við skýrslu Háskólans á Akureyri, og bendir þar meðal annars á umfjöllun um gæðamál þar sem vísað er í sjö ára gamla skýrslu frá Matís. Sú rannsókn var gerð þegar strandveiðarnar voru í rauninni nýbyrjaðar og margt hafi breyst síðan.

„Þetta er ekkert vandamál lengur. Á sínum tíma vorum við með aðila út á sjó sem aldrei höfðu stundað þessa tegund af veiðum áður.“

Axel segir ekki undarlegt þótt einhver vandamál hafi komið upp í fyrstu, meðal annars hvað varði gæðamálin.

„En það er löngu búið að leysa þetta og engin óánægja lengur með gæði aflans,“ segir hann.

Margt annað forvitnilegt kemur síðan fram í skýrslu Háskólans á Akureyri, en auk þess að skoða töluleg gögn um strandveiðar frá Fiskistofu, Hagstofunni og Verðlagsstofu skiptaverðs til að greina þróun veiðanna sendu höfundar skýrslunnar út spurningalista til strandveiðimanna til að fá beint frá þeim svör um veiðarnar og afstöðu þeirra til veiðanna.

Mikilvægar fyrir afkomu
Þar kemur meðal annars fram að nærri 80 prósent strandveiðimanna segja veiðarnar mikilvægar eða mjög mikilvægar fyrir afkomu sína, en nærri 30 prósent þeirra segja ánægjuna af veiðunum mikilvægari en efnahagslegan ávinning.

Þá segjast um 85 prósent þeirra telja strandveiðarnar hafa mikið eða mjög mikið efnahagslegt gildi fyrir heimahöfn sína. Nærri 90 prósent segjast síðan telja veiðarnar hafa mikið eða mjög mikið félagslegt gildi fyrir heimahöfnina.

Í úttektinni kemur einnig fram að aflaverðmæti strandveiðibáta árið 2017 hafi að meðaltali numið ríflega 3,5 milljónum en meðaltekjur á hverjum báti aðeins rúmlega milljón.

Þá kemur fram meðalaldur strandveiðibáta hafi sumarið 2017 verið rúmlega 26 ár, og hafi meðalaldurinn hækkað um sex ár frá á þeim átta árum sem liðnar voru frá því strandveiðar voru fyrst leyfðar. Árið 2009 var meðalaldurinn um 20 ár, þannig að endurnýjun strandveiðiflotans hefur greinilega verið lítil þennan tíma.

Vilja breytt fyrirkomulag
Í skýrslunni frá Akureyri kemur fram að strandveiðimenn hafi spurðir hverju þeir myndu helst vilja breyta við fyrirkomulag veiðanna og vildu flestir lengja veiðitímann, auka sveigjanleika veiðanna og fá auknar aflaheimildir inn í kerfið.

Þá voru þeir spurðir sérstaklega hvernig hægt væri að þjóna byggðunum betur með strandveiðum, og nefndu þá flestir að auka þyrfti kvótann, lengja tímabilin og auka sveigjanleikann. Sérstaklega nefndu margir að flytja þyrfti byggðakvótann yfir í strandveiðarnar.

Sjómönnunum var einnig gefinn kostur á að nefna eitthvað sérstakt annað sem þeir vildu koma á framfæri varðandi fyrirkomulag veiðanna.

„Lágmark að hafa kerfið þannig að hægt sé að lifa af því,“ sagði einn þeirra. Annar hafði þetta að segja: „Ég er 54 ára gamall byrjaði til sjós 1978. Ég vona að ég fái að stunda strandveiðar sem

fullt starf í framtíðinni sem gamall sjómaður því öll mín menntun er tengd sjó og lítil eftirspurn eftir gömlum sjómönnum.“