Spara hefði mátt tugir milljóna af 665 milljóna kaupum Reykjavíkurborgar á raforku ef viðskiptin hefðu verið boðin út í stað þess að versla við fyrirtæki borgarinnar samkvæmt ábendingu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem eru í minnihluta í borginni. Meirihlutinn er myndaður af Samfylkingu, Vinstri grænum, Pírutum og Viðreisn.

Greiddi borgin á bilinu 5,67-6,09 krónur fyrir raforkuna, en ofan á það kemur greiðsla vegna dreifingar sem er á bilinu 4,24-4,69 krónur á kílówattstund, auk allt frá 1,73-18,6 krónur fyrir hverja kílówattstund vegna orkuflutninga að því er Fréttablaðið greinir frá.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna segir að þó borginni sé ekki skylt að bjóða út kaupin því hún eigi 94% í Orku náttúrunnar eigi hún að gera það bæði til að spara og tryggja virka samkeppni.

„Þó að það sé ekki skylt að bjóða þetta út þá er ekkert sem bannar slíkt. Mér sýnist borgin geta sparað á bilinu níu til tíu prósent með því að kaupa orkuna á lægsta verði,“ segir Eyþór en flokkur hans fékk flesta borgarfulltrúa í kosningunum í vor.

„Hagsmunir borgarinnar eru að kaupa orkuna á sem hagstæðustu verði. Það skiptir miklu máli að borgin sé skynsöm í innkaupum en við höfum undanfarið séð dæmi um að svo sé ekki.“ Spurður hvort það sé ekki hagur borgarinnar að versla við sjálfan sig bendir Eyþór á að svo sé ekki því þyngra vegi að stuðla að virkri samkeppni.

„Með því að kaupa án útboðs af OR þá er verið að stuðla að fákeppni og gera fyrirtækinu kleift að hafa verðskrána hærri en það þyrfti. Það er einn hópur sem tapar í þessu öllu saman og það er almenningur. Hann ætti að njóta lægsta verðsins hvort sem það er í gegnum borgina eða beint til sín.“